Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á fjölveiðiskipinu Þorsteini ÞH og uppsjávarfrystiskipinu Guðmundi VE úr landi.
Fyrirhugað er að félag í eigu Royal Greenland A/S, Ísfélags Vestmannaeyja hf. og annarra aðila eignist og geri út skipin. Royal Greenland er elsta og þekktasta sjávarútvegsfyrirtæki Grænlands. Skipin verða gerð út á Grænlandsmið eftir að þau hafa verið afhent nýjum eiganda síðar á árinu.
Sem kunnugt er er Ísfélagið með nýtt uppsjávarskip í smíðum í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbúl í Tyrklandi sem afhent verður á þessu ári.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. er elsta starfandi hlutafélag á landinu, stofnað 1. desember árið 1901.  Félagið er burðarás í atvinnulífi í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.