Tveir áratugir eru síðan viðræður hófust á vettvangi Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) um að takmarka styrki í sjávarútvegi, einkum þó styrki til skaðlegra veiða
Samningsdrög voru fyrst lögð fram í júní 2020 og hafa síðan þá verið endurskoðuð nokkrum sinnum, nú síðast á fundi 15. júlí. Stefnt er að því að afgreiða þau endanlega á 12. ráðherraráðstefnunni í desember næstkomandi.
Hugmyndin er að í þessum áfanga verði styrkjum til ólöglegra, ótilkynntra og stjórnlausra veiða útrýmt auk þess sem bann verði lagt við ákveðnum tegundum af styrkjum sem ýta undir ofveiði og umframgetu í fiskveiðum. Enn eru þó skiptar skoðanir um þetta plagg þótt nokkur bjartsýni ríki á að samkomulag takist í desember.
Samtökin Oceana, sem stofnuð voru árið 1999 til þess að vinna að málefnum hafsins, birtu í júní síðastliðnum samantekt sína um styrki í sjávarútvegi, en þar er í fyrsta sinn kortlagt flæði skaðlegra styrkja í sjávarútvegi á heimsvísu.
Þar kemur fram að samtals verji ríki heims um 22,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða nærri 2.800 milljörðum króna, til þess að styrkja veiðar sem skaðlegar geta talist.
Tíu ríki
Þau tíu ríki sem verja mestu fé í styrki til skaðlegra pungi út samtals 15,4 milljörðum Bandaríkjadala til skaðlegra veiða, en sú fjárhæð er jafnvirði nærri 2.000 milljarða króna eða nærri 70% af heildarfjárhæð skaðlegra styrkja.
Kínverjar eru þar efstir á blaði og útvega alls 5,9 milljarði dala til skaðlegra veiða, en næst koma Japanir, Kóreumenn, Rússar og Bandaríkjamenn. Í tíunda sæti eru svo nágrannar okkar, Norðmenn, sem sagðir eru verja hálfum milljarði dala til þess að styrkja skaðlegar veiðar, en það jafngildir um 62 milljörðum króna.
Þessi tíu ríki verja ríflega þriðjungi þessa fjár í að styrkja veiðar utan eigin lögsögu. Víða stunda skip veiðar innan lögsögu annarra ríkja, og er það ýmist gert með samningum eða án vitundar lögsöguríkisins. Oceana fullyrðir að veiðar sem stundaðar eru fjarri heimahögum myndu oft ekki borga sig, ef ekki kæmu til styrkir frá heimalandinu.