Landssamband smábátaeigenda hefur beðið um upplýsingar um hverjir það eru sem kaupa þann afla sem þeir færa á land, og sambandið bíður nú svara frá fiskmörkuðunum um hvort fallist verður á beiðni félagsins um að seljendur fái þessar upplýsingar.
Þetta kemur fram á heimasíðu LS.
Á fundi sem LS átti með forsvarsmönnum fiskmarkaða deildu aðilar áhyggjum af lækkandi fiskverði. „Einkum er það þorskurinn sem var ræddur og það smánarverð sem hann hefur verið seldur á það sem af er júlí. Fundurinn var hreinskiptinn enda fara hagsmunir beggja aðila saman. Báðir þurfa á hvor öðrum að halda,“ segir í frétt LS en fréttir af verðlækkun hafa vakið upp margar spurningar þar sem hún er langt umfram það sem nemur styrkingu krónunnar.
Fiskkaupendur hafa eftir að málið kom í umfjöllun bent á að auk þess hafi laun og tilkostnaður í landi hækkað og tveggja mánaða verkfall sjómanna hafi skaðað ímynd Íslendinga um afhendingaröryggi. Auk þessa séu færri að vinna fisk nú í sumar en verið hefur þar sem erfitt sé að fá fólk í sumarafleysingar.
Þá segir í fréttinni að fyrir liggi að smábátaeigendur séu að þreifa fyrir sér með sölu afla beint á erlendan markað. Í þeirri vinnu eru flutningsleiðir, kostnaður og verð á mörkuðum undir.