„Menn hafa haft ýmislegt við það að athuga hvað menn fara nálægt landi þarna,“ segir Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar sem óskaði á dögunum eftir því að sveitarstjórnin mótmælti  við stjórnvöld togveiðum stórra skipa á grunnslóð innanverðs Skagafjarðar.

Magnús segir ekki nokkurn vafa á því að umræddar togveiðar hafi neikvæð áhrif á strandveiðar. „Það þýðir ekkert fyrir þessa smábáta að fara á skak þegar það eru búnir að vera tveir eða þrír togveiðibátar að veiða tuttugu til þrjátíu tonn á dag,“ segir hann.

Svæðið sem vísað er til er að sögn Magnúsar nokkurn veginn Skagafjörður innan Drangeyjar, nánar tiltekið innan línu sem dregin er milli Ásnefs og Þórðarhöfða. Bann við dragnótaveiðum var í gildi allt frá árinu 2010 til haustsins 2017 að þáverandi sjávarútvegsráðherra felldi bannið úr gildi að fenginni ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun.

Vörðu veiðislóð smábátanna

Að sögn Magnúsar hefur verið mismunandi hversu mikið dragnótabátar hafi stundað innanverðan fjörðinn. Í um mánuð núna hafi tveir dragnótabátar af Snæfellsnesi verið á veiðum á þessari slóð, veitt vel og landað á Sauðárkróki. Aflinn hafi að mestu leyti verið ýsa auk þorsks.

„Sveitarstjórnin hefur verið algerlega með okkur í liði í því að reyna að halda firðinum lokuðum,“ segir Magnús. Þegar svo hafi verið hafi smábátarnir fengið frið til að vera á færum, línu og kolanetum.

„Þessir tveir bátar hafa verið á veiða á dag helmingi meira á dag heldur en allur strandveiðiflotinn. Það er bara mjög erfitt að vera á veiðum með eiginlega nokkurt veiðarfæri þegar að svona er komið,“ segir Magnús sem kveðst sjálfur hafa verið á dragnót í Skagafirði 1964 og 1965. „Þá var allur vesturhluti fjarðarins frá Hegranesi í Drangey lokaður. Það var fyrst og fremst til að verja veiðislóðir smábátanna á Sauðárkróki.“

Sveitarfélagið mótmælti harðlega

Magnús, sem er fyrrverandi veðurstofustjóri, fór á strandveiðar á árinu 2012 og gerir út á bátnum Maró SK 33. Hann kveðst hafa aflað ágætlega í sumar en tekur fram að hann hafi ekki stundað sjóinn stíft.

„Ég er að gera þetta fyrir hönd karlanna sem lifa af þessu og hafa stundað þarna veiðar með línu eða handfæri eða kolanet eða annað í marga áratugi,“ segir Magnús. Eftir að dragnótabátarnir hafi mætt í fjörðinn undir lok júní hafi lítið þýtt fyrir færabáta að fara á sjó.

„Þá er ég að tala um þessa hæggengu báta sem eru mest að fara innan Drangeyjar. Þeir voru að fá alveg þokkalegan afla í maí og júní en eftir að þetta kom þá eiginlega þýðir ekki fyrir þá að fara á sjó, þeir fá kannski 100 eða 200 kíló á dag,“ segir Magnús.

Byggðaráð Skagafjarðar tók á síðasta fundi sínum undir erindi Magnúsar fyrir hönd Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og bendir á að sveitarfélagið hafi harðlega mótmælt afnámi bannsins árið 2107 og lýst vonbrigðum með að ekki hefði verið tekið tillit til umsagnar sveitarfélagsins í málinu.

Kasti nánast í Héraðsvötn

„Byggðarráð samþykkir samhljóða að hvetja atvinnuvegaráðherra til að taka málið til skoðunar og opna fyrir faglega og gagnsæja umræðu um framtíðarskipulag veiða með dragnót við Íslandsstrendur, með áherslu á verndun vistkerfa og sjálfbæra nýtingu,“ segir í samþykkt ráðsins.

„Sveitarstjórnin er okkur algerlega sammála í því að það er fullkomlega eðlilegt að skoða það hvort það hefur ekki einhver áhrif að menn eru nánast að kasta með þessum risadragnótum alveg upp í Héraðsvötn,“ segir Magnús. „Maður hefur séð þá minna en eina mílu frá landi og draga þá frá landi. Þeir hljóta að fá einn og einn silung og lax líka, jafnvel þótt þetta sé botnveiðarfæri því það er svo grunnt þarna.“