Stjórn Hafnasamlags Norðurlands bs hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun forsvarsmanna Eimskips að leggja af strandsiglingar til hafna á Norðurlandi og Vestfjörðum í kjölfar stöðvunar á starfsemi kísilverksmiðju PCC á Bakka.

„Þessi ákvörðun mun þýða töluvert tekjutap fyrir hafnasamlagið, dregur úr samkeppni auk þess að leiða af sér aukið álag og slit á þjóðvegakerfinu. Jafnframt mun slysahætta með mikilli fjölgun flutningabíla á vegakerfinu aukast umtalsvert,“ segir stjórn hafnasamlagsins. Það sé ljóst að strandsiglingar hafi mun minni neikvæð umhverfisáhrif heldur en umferð flutningabíla.

Innviðaráðherra leiti allra leiða

„Það er mikið hagsmunamál fyrir íbúa á landsbyggðinni auk fyrirtækja að flutningskostnaður sé eins hagkvæmur og kostur er og er það mat stjórnar Hafnasamlagsins að strandflutningar séu liður í því. Því hvetur stjórn Hafnasamlags Norðurlands innviðaráðherra til að leita allra leiða til að strandflutningar leggist ekki af heldur verði auknir eins og kostur er,“ segir í bókun stjórnar Hafnasamlags Norðurlands bs.

Bæjarráð Akureyrar tekur undir með stjórn hafnasamlagsins. „Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af því að verulega verði dregið úr strandsiglingum til hafna á Norðurlandi og Vestfjörðum. Slíkt gæti haft neikvæð áhrif á atvinnulíf, umhverfi, vegakerfi og umferðaröryggi, bæði innan sveitarfélagsins og utan,“ segir í bókun.

Starfshópur þegar verið skipaður

Þá hvetur bæjarráðið innviðaráðherra til að skoða hvort og þá hvaða leiðir séu raunhæfar til að tryggja aðgengi landsbyggðanna að fjölbreyttum og hagkvæmum flutningsleiðum. „Verði þessi breyting hins vegar að veruleika eykur það enn brýna þörf á styttingu leiðar milli Eyjafjarðar og höfuðborgarsvæðisins,“ undirstrikar bæjarráðið.

Eins og fram kom í Fiskifréttum síðastliðinn föstudag hefur Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra þegar skipað starfshóp sem hefur það verkefni að móta og leggja fram aðgerðaáætlun um leiðir til að efla strandflutninga á sjó.