„Við ætlum að sjá hvort loðnan er komin að einhverju ráði austur fyrir Kolbeinseyjarhrygginn,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, um leiðangur sem lagt var upp í á Aðalsteini Jónssyni SU frá Eskju í gær.

Tímasetur stóra leiðangurinn í janúar

Guðmundur segir að athyglinni verði beint að norðausturmiðunum. Áætlað sé að Aðalsteinn verði sex daga á miðunum, eftir veðri. Niðurstöðurnar nýtist til að tímasetja stóra leiðangurinn í janúar þegar farið verði að mæla. „Ef hún er komin að einhverju ráði þarna austur fyrir þá þurfum við að fara fyrr af stað, í byrjun janúar væntanlega en getum verið rólegri ef hún er ekki komin að hryggnum,“ segir hann.

Guðmundur ítrekar að ekki sé litið á þennan leiðangur á Aðalsteini sem heildarmælingu. „Þetta er könnun á dreifingu og magni,“ segir hann. Engar sérstakar væntingar séu bundnar við þennan túr. „Við gerum ekki ráð fyrir að við náum utan um stofninn núna, annars hefðum við farið í meira rannsóknarátak. Markmiðið er fyrst og fremst að skoða dreifinguna.“

Vilja ekki týna loðnunni

Staða rannsóknarskipin nú í morgun. Rauða línan sýnir siglingaleið Aðalsteins Jónssonar SU. Kort/Hafrannsóknastofnun
Staða rannsóknarskipin nú í morgun. Rauða línan sýnir siglingaleið Aðalsteins Jónssonar SU. Kort/Hafrannsóknastofnun

Að sögn Guðmundar hafa þær fregnir sem þegar hafi borist af loðnu allar verið að vestan, af Strandagrunni og þar um kring. Samkvæmt þeim sé hún ekkert komin austur fyrir. „Hún mun á einhverjum tímapunkti ganga þarna austur fyrir og ef hún er komin þangað núna og eitthvað austar en hryggurinn þá er ástæða til að vera á varðbergi og fara snemma út. Við viljum ekki hætta á að missa hana langt austur með landinu áður en við förum til mælinga. Við getum týnt henni þar, það er alltaf hættan,“ segir Guðmundur.

Tafir á Þórunni

Gert er ráð fyrir fjórum skipum í loðnuleiðangrinum í janúar; tveimur rannsóknarskipum Hafrannsóknastofnunar og tveimur togurum. Mikið er í húfi.

„Menn vilja gjarnan sjá eitthvað jákvætt koma út úr þessu. Mælingin okkar í haust var á mörkunum að gefa eitthvað,“ segir Guðmundur.

Reyndar geti svo farið að fá þurfi þrjú veiðiskip því mögulega verði áhöfn Bjarna Sæmundssonar ekki til taks heldur úti á Spáni við prófanir á nýja rannsóknarskipinu Þórunni Þórðardóttur. Nú sé vonast til að nýja skipið verði komið til Íslands í lok janúar eða byrjun febrúar sem er heldur síðar en áður var vænst. „En þetta eru svo sem ekki miklar tafir borið saman við aðra nýsmíði,“ segir Guðmundur.