Margir félagsmenn í Landssambandi smábátaeigenda hafa, að sögn Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra, mikinn hug á að vísa þróun fiskverðs undanfarin misseri til samkeppniseftirlitsins.

Síðastliðið sumar gerðist það að fjórðungslækkun á fiskverði kom í veg fyrir að smábátaveiðarnar skiluðu viðunandi afkomu þetta árið. Um þetta var meðal annars rætt á aðalfundi Landssambandsins í lok síðustu viku. Þar kom fram að þessi mikla lækkun þykir grunsamleg og þróunin undanfarin ár hefur sömuleiðis ekki þótt einhlít

„Þegar menn eru svo að horfa upp á það hvernig verðið var í sumar og hvernig það er núna, verðið á þorskinum í júlí og svo verðið á þorskinum núna í september, þá varð það 48 prósent hærra verð í september,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landsambandsins.

„Þetta er eitthvað sem mönnum finnst ekki geta staðist að allt í einu hafi menn mikil tækifæri til að kaupa á miklu hærra verði. En það eru vissulega fjölmargir þættir þarna sem spila inn í,“ bætir hann við, „eins og til dæmis sumarlokun og fiskneysla yfir sumarið, en síðan meiri eftirspurn þegar kemur fram á haustið.“

Ábendingar hafi samt borist um að ákveðnir aðilar, eða jafnvel bara einn aðili, væru kannski að kaupa fisk fyrir marga aðra. Hann segir Landsambandið hafa fengið mjög skýr skilaboð frá aðalfundinum um að þetta verði skoðað ofan í kjölinn.

„Við höfum auðvitað miklar upplýsingar um þetta, en hins vegar þrengdi aðeins að okkur þegar fiskmarkaðirnir lokuðu fyrir ákveðnar upplýsingar nú í sumar, eins og hver væri að kaupa og annað slíkt. Það er þá aðeins minna af upplýsingum sem við getum fengið. En þetta verður allt skoðað.“

Hann segist líka vonast til þess að fiskverðið komi til með að hækka áfram. Ástandið í sumar hafi verið frekar óvenjulegt.

Ályktunin, sem samþykkt var á fundinum, hljóðar svo: „Aðalfundur LS telur að sú lækkun sem hefur orðið á fiskverði sl. 5 ár sé ekki einhlít. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að ekki sé um samráð að ræða á milli fiskkaupenda. Fulltrúr Landssambands smábátaeigenda og Samkeppniseftirlitið þurfa að fara í þetta mál. “

Ágreiningur um netaveiðar smábáta
Eitt stærsta hitamálið á fundinum þetta árið urðu hins vegar tillögur um að Landsambandið eigi að krefjast þess að krókaaflamarksbátum verði leyft að stunda netaveiðar samhliða línu- og handfæraveiðum. Þetta yrði alger kúvending á stefnu félagsins, sem hingað til hefur barist hart fyrir því að sérstaða smábátaveiðanna haldist. Smábátarnir eigi þar með ekki heima innan almenna kvótakerfisins heldur fá sérstaka kvótaúthlutun, sem haldist innan smábátaflotans.

„Mikil og mjög góð umræða,“ segir Örn um samtal manna á aðalfundinum um netaveiðitillöguna. „Þetta var málefnalegt hjá báðum aðilum og mörg sjónarmið sem komu þar fram.“

Undir lokin kom fram eins konar málamiðlunartillaga um að fundurinn ályktaði að menn mættu fara á net en jafnframt yrði skýrt tekið fram að menn væru ekki að berjast fyrir því að sameina kerfin tvö, stóra kvótakerfið og síðan krókaaflamarkskerfið.

„Það var tekið skýrt fram að menn væru algerlega á móti því að kerfin yrðu sameinuð,“ segir Örn. „En þessi tillaga var fellt með 23 atkvæðum gegn 21, þannig að við viljum hafa krókaaflamarkið óbreytt, að það sé bundið við línu og handfæri eins og það er í dag. En þetta náttúrlega sýnir það að það er mikil gerjun í félaginu og menn geta tekist á um málin.“

Hann segir þessa niðurstöðu hafa komið nokkuð á óvart. Fyrir fundinn höfðu þrjú af aðildarfélögum Landsambandsins lagt það til að í ályktun yrði opnað á netaveiðar, en níu aðildarfélög voru því andvíg.

„Áður en fundurinn var settur lágu sem sagt fyrir skoðanir frá flestum svæðisfélögunum og þá átti maður nú ekki á því að atkvæðagreiðslan myndi fara svona í lokin. Ef mann hefði órað fyrir því að það yrði svona mikið fylgi við þetta á aðalfundinum þá hefði verið hægt að vera fyrirfram búinn að vinna einhverja skýrslu til að leggja fram um kosti og galla þess að breyta þessu.“

Örn segir hins vegar að nú gefist mönnum tækifæri til að undirbúa slíka skýrslu fyrir næsta aðalfund og skoða þá þessi mál betur.

Umhverfisvæn sérstaða
Sérstaða línuveiðanna hefur raunar ekki síst verið sú að þær eru miklu umhverfisvænni en netaveiðar og skila jafnan úrvals hráefni að landi. Þær styrki þannig enn frekar gott orðspor íslensk sjávarútvegs hvað varðar umgengni við náttúruna.

Nú síðast í sumar ákvað stjórn Landsambandsins að nýta sér þessa sérstöðu til þess að knýja á um að sérstök ívilnun verði veitt öllum dagróðabátum, minni en 30 brúttótonn, vegna umhverfisvænna veiða.

Tillaga í þessa veru hlaut síðan samþykki á fundinum, þar sem ákveðið var að leggja áherslu á að hækka línuívilnun úr 20 prósentum upp í 30 prósent.

Örn segir menn nú í auknum mæli farnir að tala umhverfisívilnun í stað línuívilnunar smábáta, með skírskotun til þess hversu umhverfisvænar þessar veiðar eru.

„Við lítum líka til þess núna að þegar það kemur upp að menn vilji veiða með netum, vegna þess að kostnaðurinn við línuveiðarnar hefur stóraukist, að þá sé bara eðlilegt að við fáum ákveðna ívilnun á móti, til að koma til móts við það,“ segir hann.

„Því línuveiðar eru sífellt að vinna á. Auk umhverfisvænleika þeirra er aflinn mjög eftirsóttur og selst inn á dýrustu ferskfiskmarkaðina þar sem afli frá netabátum á erfiðara uppdráttar. En þarna þurfa stjórnvöld að koma inn í og breyta lögum um stjórn fiskveiða þannig að allir dagróðrabátar undir 30 brúttótonnum fái 30% ívilnun. Þarna erum við að tryggja aðgang fiskkaupenda að auknu framboði að ferskum fiski.“

Framtíðin í veiðunum
Örn segir mikilvægt að krókaaflamarksbátar haldi áfram að markaðssetja sig sem línu- og handfærabáta. Það sé meiri eftirspurn eftir þeim fiski og þar af leiðandi meiri framtíð í veiðunum.

„Auðvitað væri gott ef við hefðum bolmagn til að marka okkur sérstöðu miklu betur, þannig að við næðum hærra verði. Við höfum verið að skoða það á ýmsan hátt, varðandi fiskmarkað og sölu á afla, að stjörnumerkja báta eða eitthvað annað slíkt. Það er svo sem ekki komið alveg að því ennþá en við vorum með átak í sumar og höfum verið með það undanfarin ár að ganga vel um og annað slíkt. Við fjárfestum til dæmis í hitamæli á hvern einasta bát og sendum til allra smábátaútgerða landsins. Það mæltist mjög vel fyrir. Öll þessi eftirfylgni um góða aflameðferð hefur skilað sér, aflameðferð ekki lengur vandamál hjá smábátum, allir sem einn hafa þeir metnað í sér til að ganga eins vel og hægt er um fiskinn.“

Fjölmargar aðrar ályktanir voru samþykktar á aðalfundi Landsambandsins, þar á meðal ályktun um að 16% af leyfilegum heildarafla á makríl komi í hlut færabáta og áskorun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að beita sér nú þegar fyrir breytingu á lögum um veiðigjald. Auk þess krefst aðalfundurinn þess að allur byggðakvóti verði veiddur í kyrrstæð veiðarfæri af dagróðrarbátum undir 30 tonn að stærð.

Þá var Axel Helgason einróma endurkjörinn formaður Landssambandsins.

Samþjöppun

Landsamband smábátaeigenda hefur árum saman varað við og barist gegn samþjöppun í sjávarútvegi og gagnrýnt lagabreytingar sem ýtt hafa þróuninni í þá átt, eins og því þegar Alþingi ákvað árið 2013 að breyta skilgreiningu á smábátum þannig að þeir geti verið fimmtán metra langir og allt að 30 brúttótonn. Landsambandið hefur talið að þessi breyting hafi átt verulegan þátt í því að kvótasamþjöppun hefur ekki bara orðið meðal stærri útgerða heldur einnig í smábátakerfinu.

„Mér finnst að af þessu megi draga mikilvægan lærdóm,“ segir Örn. „Landssambandið var andvígt þessu á sínum tíma, og vildi þá skoða bæði kosti og galla breytinganna, en svo kemur ný ríkisstjórn árið 2013 sem keyrir það í gegn bara strax eftir að hún er kosin. Það hafa skapast alls konar vandamál í kringum þetta, eins og til dæmis varðandi kjarasamninga og réttindamál.“

„Þegar til dæmis bátarnir stækka um 100 prósent þá verður meira umleikis og þeir þurfa meira til sín. Þar af leiðandi þjappast hlutdeildin á færri og færri hendur. Að sjálfsögðu hefur Landssambandið samt unnið með lögunum eins og þau breyttust. Við erum að fá þetta í fangið og reynum að vinna úr þessu eins og við getum.“

Eins og sjá má á súluritunum hér á opnunni, sem fengin eru úr skýrslu Arnar sem hann flutti á aðalfundinum, hefur smábátum með krókaaflahlutdeild fækkað hratt á síðustu árum og voru 258 á síðasta ári. Jafnframt hefur aflahlutdeild 50 stærstu bátanna aukist um tvö prósentustig árlega á síðustu árum.

„Þannig að þetta er auðvitað mikil breyting,“ segir Örn, en tekur þó fram að hér við land hafi engu að síður upp undir þúsund smábátar landað afla hér á síðasta ári.

„Þetta eru smábátar á færaveiðum, makrílveiðum, grásleppuveiðum og línuveiðum, þannig að það er svo sem ekkert að örvænta í því.“

Samstaðan rofnar
Lagabreytingin fyrrnefnda árið 2013, þegar skilgreining smábáta fór upp í 30 brúttótonn, hafði það einnig í för með sér meðal annars að nokkur útgerðarfélög klufu sig út úr Landssambandinu og stofnuðu annað félag, Samtök smærri útgerða. Áður fyrr var Landsambandið eina félagið sem barðist fyrir veiðirétti smábáta og kynnti málstað þeirra.

Á aðalfundinum kom fram gagnrýni á stjórnvöld fyrir skort á samráði við Landssambandið og Örn segir það meðal annars mega rekja til þess að samstaða meðal smábátaeigenda hafi minnkað undanfarin ár.

„Já, allt umhverfi við stjórnvöld er breytt og hefur breyst töluvert á undanförnum árum,“ segir Örn. „Ég hef fundið það að styrkurinn er ekki eins mikill og hann var þegar maður kemur með ályktanir frá félaginu. Því ef viðkomandi ráðherra til dæmis líkar ekki málflutningur okkar þá getur hann skotið sig á bak við hinn aðilann og sagt sem svo: Ja, ég er nú búinn að hitta fleiri smábátaeigendur og meðal annars einn félagsskap, og hann er nú ekki alveg sammála ykkur. Og þetta er ekki gott.“