Matís hefur frá árinu 2014 unnið með Snæfellsnesbæ, Grundarfjarðarbæ og Stykkishólmsbæ að greiningu lífhagkerfis Snæfellsness. Markmið verkefnisins var að styrkja þekkingargrundvöll vistvænnar þróunar og stuðla þannig að bættri nýtingu hráefna úr lífríkinu á og við Snæfellsnes.
„Við byrjuðum á því að kortleggja svæðið með tilliti til fyrirtækja og einstaklinga sem á einhvern hátt nýta náttúruauðlindir Breiðafjarðar, sem og að kortleggja auðlindir út frá heimildum. Þar á eftir skoðuðum við hvaða þættir það eru innan stjórnsýslunnar sem hafa áhrif á hvernig og hvort auðlindir eru nýttar. Eftir þessa skipulagsvinnu voru fyrstu ferðirnar farnar vorið 2014 þar sem við ræddum við fólk og fyrirtæki, bæjarstjóra, aðila innan rannsókna- og þróunargeirans,“ segir Birgir Örn Smárason, sérfræðingur hjá Matís, en hann og samstarfsmenn hans vörðu töluverðum tíma á svæðinu í fimm rannsóknarferðum árin 2014 til 2016.
Fjölbreyttir möguleikar
Skýrsla um verkefnið er ný birt og er aðgengileg á vefsíðu Matís. Þar kemur í ljós hversu fjölbreyttir möguleikar eru að finna á landsvæði eins og Snæfellsnesi þegar rýnt er í möguleikana.
Fyrst er að telja hliðarafurðir, sem skoðaðar voru sérstaklega. Þetta verkefni var samstarfsverkefni Matís og aðila í Noregi og Rússlandi. Þar er fjallað um nýtingu þriggja ónýttra hráefna, blóðs, svilja og augna, og mögulega nýtingu þeirra sem lífvirkra efna í sér fóður fyrir eldisfisk auk annarra nota. Þróaðar voru aðferðir til þess að safna þessum aukaafurðum og þær greindar. Nú er aukins fjármagns leitað til að prófa sérstaklega blóð og svil sem hráefni í fóður fyrir eldisfisk.
Þá var aukið virði þörungavinnslu skoðað. Þetta verkefni miðaði að því að auka virði þörungavinnslu á Íslandi, meðal annars með því að skoða mögulega nýtingu á hrati. Verkþáttur Birgis Arnars snéri að því að prófa hrat úr þangvinnslu sem æti fyrir svörtu hermannafluguna sem síðan er nýtt sem hráefni í fiskafóður.
Verkefnið ProffAqua
Í skýrslunni segir af því að með stuðningi Nordic Innovation, undir formerkjum Nordic Marine Innovation 2.0, hefur Matís ásamt samstarfsaðilum unnið að því markmiði að umbreyta lífrænum úrgangi eða hráefnisstraumum í hágæða fiskafóður. Sá hluti verkefnisins sem snýr beint að Breiðafirði er nýting fiskúrgangs, það er; að ala lirfur svörtu hermannaflugunnar á fiskúrgangi sem til fellur og þar með umbreyta honum í hágæða prótein og fitu. Þetta var gert í samstarfi við Víur á Bolungarvík. Niðurstöður benda til þess að lirfumjöl, þar sem lirfur eru aldar á fiskiúrgangi sé góð viðbót í flóru hráefna í fiskafóður.
Að síðustu kemur til sögunnar verkefni Írisar Mýrdal, en Birgir Örn var í leiðbeinendahópi hennar. Birgir fór um Snæfellsnesið og ræddi við hagaðila sumarið 2014 og í framhaldi að því hafi frumkvöðlum á Snæfellsnesi verið boðið til fundar 2016 sem var grunnur að meistaraverkefni Írisar. Rannsóknin, sem skoðaði frumkvöðla og aðkomu þeirra að nýtingu náttúruauðlinda, var samstarfsverkefni Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikilvægustu forsendur fyrir nýtingu frumkvöðla á náttúrauðlindum komi til af þekkingu á umhverfinu, áhrifum af staðsetningu þeirra, þekkingu á ákveðnum svæðum og möguleikum þess, auk kunnáttu viðkomandi frumkvöðuls. Hvatinn er afleiðing utanaðkomandi þátta eins og verðmætasköpunar, vöruþróunar, ástríðu fyrir hreinni framleiðslu og minni sóun, ásamt áhuga á sjálfbærri, lífrænni framleiðslu.
„Reglugerðir reynast bæði vera hvati og hindranir fyrir frumkvöðla þar sem þær vel útfærðu og ströngu virka vel en aðrar sem ekki eru jafn vel ígrundaðar standa í vegi fyrir sjálfbærum aðgerðum. Sjóðir og styrkir spila ekki stór hlutverk í nýtingu tækifæra fyrir þá frumkvöðla á svæðinu sem rætt var við, hins vegar treysta frumkvöðlarnir á eigið fjármagn, þeir þróa vörur sínar hægt og nýta úrræði frá fyrri framleiðslu og þróunum,“ segir í skýrslunni.
Skordýr
En hversu raunhæft er að byrja vinnslu þessara aukaafurða – hvað þarf til?
„Það er nokkuð misjafnt, sumar af þessum afurðum eða auðlindum þarfnast frekari rannsókna og þróunar eins og gefur að skilja,“ segir Birgir. „Hins vegar er margt sem hægt væri að gera strax til þess að nýta auðlindir betur. Undirstaða verkefnahugmyndarinnar var notkun van- eða ónýttra hráefna í fiskafóður í ljósi þess vaxtar sem áætlaður er í fiskeldi, sér í lagi fyrir vestan og austan. Vegna vaxtar fiskeldis almennt á heimsvísu er gríðarlega mikilvægt að huga að sjálfbærni þess, þá sér í lagi hvað varðar fóðrið því þar liggja helstu áhrifin á umhverfið - ræktun á soja, repju, hveiti og öðru, flutning þess til Evrópu, framleiðsla á fiskimjöli og fleira,“ segir Birgir.
Birgir segir að Matís hafi undanfarin ár verið mikið að skoða notkun skordýra til þess að brjóta niður lífmassa sem annars nýtist ekki, og umbreyta því í hágæða prótein. Þessi iðnaður er á hraðri uppleið og er nú svo komið að nokkur fyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum bjóða slíka vöru. Birgir segir að reyndar séu reglur enn það strangar að aðeins má fóðri skordýrin á þröngt skilgreindum hráefnum, þetta muni breytast með frekari rannsóknum í náinni framtíð. Birgir segir að í júlí 2017 hafi Evrópusambandið ákveðið að leyfa notkun slíks skordýramjöls í fóður fyrir fiska sem sé mjög jákvætt skref.
Fiskablóð
„Varðandi verkefnin sem unnin voru varðandi Breiðafjörð, fórum við í Matís í samstarf við Víur sem var fyrsta fyrirtækið sem stefndi á framleiðslu skordýrapróteins fyrir fiskeldi, og ala lirfur svörtu hermannaflugunnar á fiskúrgangi. Það gekk í raun nokkuð vel en því miður sáu Víur ekki rekstrargrundvöll þegar fram í sótti meðal annars vegna strangari reglna um fóðurhráefni fyrir skordýrin en búist var við“ segir Birgir sem telur þó að ekkert sé því til fyrirstöðu að koma upp slíku fyrirtæki í dag og hefja framleiðslu,“ segir Birgir.
Matís er einnig með verkefni í gangi varðandi ræktun og nýtingu þangs og þara í fiskafóður. „Það hefur gefið ágæta raun en gallinn er að próteininnihald er frekar lítið og vatnsinnihald mjög mikið, því þarf að nota mikla orku til þess að þurrka afurðina. Við gerðum rannsókn á því hvort skordýr gætu nýtt sér þessa afurð blauta og gekk það þokkalega en þarfnast frekari rannsókna. Hvað varðar nýtingu aukaafurða sem nánast ekkert eru nýtt í dag, fiskablóð og svil, þá var það mjög áhugaverð rannsókn. Við skoðuðum leiðir til þess að ná þessu hráefni sem gekk vel. Hér þarf að eyða töluverðri orku til þurrkunar en þurrefnið sem verður eftir er mjög áhugavert. Við áætlum að prófa þessi tvö hráefni sem bætiefni í fiskafóður á næsta ári,“ segir Birgir og bætir við aðspurður að frekar lítið sé hægt að segja um mannaflsþörf og tekjuhlið þessarar vinnslu.
„Þessi þáttur var ekki skoðaður mikið en áhugi er að halda þessari verkefnahugmynd lifandi og yrði þetta þá skoðað.“