Grænlenska náttúrustofnunin, sem veitir stjórnvöldum á Grænlandi veiðiráðgjöf um nýtingu fiskistofna við landið, segir að ef rækjukvótinn við Vestur-Grænland verði ekki minnkaður úr 85.000 tonnum í 60.000 tonn verði nýting stofnsins ekki sjálfbær.
Rannsóknir eru sagðar hafa leitt í ljós að lífmassi rækju við Vestur-Grænland hafi verið næstum í fríu falli frá því að hann var mestur árið 2004. Árunum 2004-2007 náðu rækjuveiðarnar hámarki og voru veidd um 130 þúsund tonn á ári. Síðan þá hefur afli á togtíma verið á niðurleið.
Fram kemur að lítið er af smárækju, 2-3 ára, í stofninum sem rakið er til aukinnar þorskgengdar, aðallega við hafið sunnanvert við Vestur-Grænland. Þorskurinn étur rækju og fiskifræðingarnir sjá fram á að með fjölgun þorsks á næstu árum verði stöðugt stærra skarð höggvið í rækjustofninn.
Þetta kemur fram í frétt á vef grænlenska útvarpsins.