Matís í samstarfi við Síldarvinnsluna í Neskaupstað og Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands vinnur að rannsókn á nýtingu rauðátu úr meltingarvegi makríls.

Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt; annars vegar að finna aðferðir til að skilja rauðátu með skilvirkum hætti frá aukaafurðum makríls sem fara í bræðslu til að koma í veg fyrir gæðarýrnun á fiskmjöli, og hins vegar að vinna úr átunni verðmætar fiskolíur og fullvinna lýsi úr henni sem er ríkt af andoxunarefninu astaxanthíni.

Þegar Fiskifréttir náðu í Stefán Þór Eysteinsson, verkefnisstjóra hjá Matís, var hann í Noregi á fundi um verkefni sem Matís tekur þátt í og snýst um leiðir til að nýta fisktegundir í miðsjávarlaginu og beina nýtingu á rauðátu. Norðmenn eru komnir vel af stað með beinar veiðar á rauðátu en leita nú leiða til einfalda veiðarnar og ennfremur að finna leiðir til að nýta ljósátu úr Noregshafi.

„Norðmenn hafa stundað vísindaveiðar á rauðátu í Noregshafi frá árinu 2003. Nú eru þeir með útgefinn kvóta upp á 250 þúsund tonn á ári en þeir hafa víst ekki náð nema brotabroti af þeim kvóta á yfirstandandi kvótaári. Þeir eru líka stórtækir í veiðum á ljósátu í Suðurskautshafinu. Þeir hafa áhuga á því að nýta ljósátuna í Atlantshafinu og binda vonir við að hægt verði að veiða hana nær Noregsströndum og vinna hana. Verkefnið felst í því að reyna að finna lausnir á þeim fjölmörgum vandamálum sem snúa að þessum veiðum og nýtingunni líka,” segir Stefán Þór.

Rauðáta sem meðafli

Verkefnið hérna heima, sem kallað er Rauða gullið, snýst ekki um beinar veiðar á rauðátu heldur sem meðafla. Leitað er leiða til að vinna rauðátuna sem kemur með makrílnum í töluverðu magni. Yfir heila makrílvertíð berast á land nokkur hundruð tonn af rauðátu í meltingarvegi makríls og í kælitönkum uppsjávarskipanna.

„Sú áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna er að safna rauðátunni saman í því magni að fýsilegt sé að vinna það áfram. Við höfum haft mestan áhuga á olíunni sem hægt er að vinna úr rauðátunni. Hún er öðruvísi uppbyggð en t.d. þessi klassíska fiskolía sem við fáum úr þorskalýsi. Rannsóknir benda til þess að hún hafi aðra virkni á menn. Rauðátan er líka rík af andoxunarefninu astaxanthíni sem gefur henni þennan rauða lit og eykur stöðugleika fiskolíunnar gagnvart þránun. Astaxanthín er eftirsótt andoxunarefni og þeim vörum sem innihalda efnið fjölgar með hverju árinu.”

Skemmdarvargur

Verkefnið hefur staðið yfir í nokkur ár og var í upphafi styrkt af Rannsóknarsjóði síldarútvegsins og  Tækniþróunarsjóði.

Í þeim hluta verkefnisins sem þessir styrkir náðu til var aðallega skoðað hvaða áhrif rauðáta hefði á makríl. Hún er rík af ensímum sem geta brotið niður fiskvefi og afurðir sem innihalda mikið af rauðátu skemmast mun hraðar en aðrar afurðir jafnvel þótt þær séu frystar.

Í vinnslu á makríl með mikla átu er hann hausaður og slægður. Innyflin með átunni fara í bræðslu og þar skemmir rauðátan út frá sér og brýtur niður prótein og fitu í hráefninu sem er á leið í bræðslu.

„Þegar horft er á allan ferilinn er rauðátan mikill skemmdarvargur og það er til mikils að vinna að fjarlægja hana út úr þessu ferli og mögulega þá nýta hana í aðra verðmætasköpun. Það er til mikils unnið ef okkur tækist einungis að skapa feril til þess að óvirkja ensímin í rauðátunni. Með því værum við kannski ekki að búa til verðmæti heldur bjarga verðmætum á ákveðinn hátt bæði í framleiddu mjöli og lýsi,” segir Stefán.

Þessi þáttur verkefnisins er bundinn af makrílvertíðinni sjálfri en á meðan hennar er beðið er unnið að margvíslegum lausnum sem varða söfnunarbúnað og vinnsluferla.

Styrkur frá ESB

Framhald verkefnisins, BIOZOOSTAIN, sem snýr að vinnslu verðmæta úr rauðátunni, hlaut einnig styrk frá Blue Bio Cofund sem er hluti af Horizon rannsóknaráætlun ESB. María Guðjónsdóttir, prófessor í matvælafræði við Háskóla Íslands, er verkefnisstjóri. Þar er einkum verið að skoða lífvirkni afurðanna og hvaða áhrif efnin hafa á mannslíkamann.

Stefán Þór segir, aðspurður um hvort hann telji líklegt að út úr þessum rannsóknum komi að lokum framleiðsluvara, líklegt að svo verði. Tækifærin séu sannarlega til staðar. Framleiðslan þurfi þó að vera sjálfbær og hagkvæm. Enn séu áskoranir til staðar en takist að leysa þær sé mjög líklegt að framleiðsluvara verði til úr þessari afurð.

„Síldarvinnslan er stór þátttakandi í þessu verkefni og við höfum átt frábært samstarf við fyrirtækið sem er alltaf tilbúið að leggja sitt af mörkum. Við værum komin mun styttra á veg í mörgum pælingum ef ekki væri fyrir þá og aðra í greininni. Þetta samstarf er alveg einstakt og norskir kollegar mínir eiga ekki jafn auðvelt með að komast inn í fyrirtækin og eiga þessi samtöl.“

Styrkja Rauða gullið

Nýlega var tilkynnt um styrkveitingu Matvælasjóðs til verkefnisins undir heitinu Rauða gullið. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum og er í því sambandi lögð áhersla á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Styrkurinn sem verkefnið hlaut nemur rúmlega 19 milljónum króna.

Mikil vinna hefur verið lögð í kortlagningu á rauðátu við Ísland og mögulegri nýtingu á henni og byggði styrkumsókn Síldarvinnslunnar til Matvælasjóðs á þeirri forvinnu. Rannsóknirnar á rauðátunni hófust árið 2016 en þá hófst vinna við verkefni sem bar yfirskriftina Áhrif rauðátu við veiðar og vinnslu uppsjávarfisks.

Þá styrkti AVS- styrktarsjóðurinn einnig rauðátuverkefnið árið 2020 og var styrkurinn veittur til vöruþróunar á hágæða afurðum og innleiðingu þeirra á markað. Innan þessa verkefnis var áhersla lögð á að þróa tækjabúnað til að safna rauðátu úr innyflum makríls og var uppsetningu þess búnaðar lokið í ár í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hafin söfnun sýna.

Mikilvæg fæða í hafinu

Rauðáta er krabbadýr. Hún er um fjórir millimetrar að stærð. Hún er rauðleit og stafar liturinn af næringarforða sem hún safnar í líkamann.

Rauðátan lifir í norðanverðu Norður-Atlantshafi. Hún býr við strendur Evrópu frá Svalbarða og Barentshafi suður til Ermarsundsins. Við austurströnd Norður-Ameríku nær útbreiðslusvæðið frá Baffinslandi í Kanada suður til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hér við landið er rauðátan allt í kringum land. Rauðátan étur fyrst og fremst svifþörunga.

Allmargar tegundir fiska éta rauðátu. Fiskar eins og loðna, sandsíli og síld lifa að mestu leyti á rauðátu. Mun fleiri fiskar éta þó egg, lirfur og ungstig rauðátunnar meðan þeir eru á lirfu- eða seiðastigi. Til dæmis er aðalfæða loðnu -, sandsíla -, þorsk - og ýsulirfa egg og lirfur rauðátunnar á meðan þau eru í svifinu.