Samtök skipstjórnarmanna (FFSÍ) og útvegsmanna (LÍÚ) hafa sameiginlega farið þess á leit við sjávarútvegsráðherra að hann láti skoða hvaða afleiðingar það hefði að mati Hafrannsóknastofnunar ef skerðing karfakvótans á yfirstandandi fiskveiðiári yrði dregin til baka, en karfakvótinn núna er 10 þúsund tonnum minni en á síðasta kvótaári.
,,Skerðing karfakvótans er í algjörri mótsögn við það sem skipstjórar upplifa á miðunum,” segir Árni Bjarnason forseti FFSÍ í samtali við Fiskifréttir. ,,Ef menn koma einhvers staðar nálægt hefðbundnum karfamiðum er mjög góð veiði og auk þess hefur útbreiðsla þessarar tegundar aukist gríðarlega þannig að karfa er að fá mjög víða þar sem hann þekktist ekki áður. Margir eru búnir með karfakvóta sína og ekki er möguleiki að fá karfakvóta leigðan. Ef menn ætla að stunda sjóinn áfram er tómt mál að tala um að komast í gegnum heila veiðiferð án þess að fá einhvern karfa. Hvað á þá að gera við þann afla?”
Sjá nánar í Fiskifréttum.