Faxaflóahafnir hafa til skoðunar erindi Nýs Landspítala (NLSH) um móttöku efnis vegna framkvæmda við Landspítalann næstu árin. Talið er að 80% þess efnis sem til fellur nýtist til landfyllingar. Forsvarsmenn Faxaflóahafna telja svæði við við eldri landfyllingu og manngerða strandlínu norðan Klettagarða, og tengja hana landi Faxaflóahafna í Sundahöfn, koma til greina. Engin slík landfylling er þó á aðalskipulagi borgarinnar í augnablikinu.

Mikil þörf er á svæðum fyrir losun á efni frá uppbyggingarsvæðum í borginni á næstu misserum. Ef að ekki finnast slík svæði á næstunni mun þurfa að flytja efni upp í Bolaöldu við Vífilfell með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum.

Þetta kemur fram í minnisblaði hafnarstjóra Faxaflóahafna vegna erindis Nýs Landspítala um mögulega móttöku á efnis frá byggingarframkvæmdum næstu ára á Landspítalalóðinni. Hefur hafnarstjórn samþykkt að óska heimildar Reykjavíkurborgar fyrir landfyllingu við Klettagarða í samræmi við þessar hugmyndir. Undir minnisblaðið skrifa Gísli Gíslason, hafnarstjóri, Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri og Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna.

Áformin, ef af þeim verður, eru nokkuð umfangsmikil og myndu breyta strandlengjunni austan við Laugarnes og vestan við vitann á Skarfagarði töluvert. Um er að ræða um það bil 200.000 rúmmetra af efni en við gæti bæst efni frá byggingarreitnum við Kirkjusand – en framkvæmdir eru að hefjast þar eins og á Landspítalareitnum.

Helstu rökin fyrir því að losa efnið í nýja landfyllingu á þessum stað eru að stytta akstursleiðir til losunar og að umhverfissjónarmið vegi þungt þegar horft er til stuttra akstursleiða við framkvæmdir eins og þessar. Í bréfi stjórnarformanns NLSH, Erling Ásgeirssonar, segir að „öll svæði nálægt verksvæði Hringbrautarverkefnisins eru betri kostur til brottflutnings á efni en flutningur þess í Bolöldur, í uppsveitum Reykjavíkurborgar, sem eru í um 35 km. fjarlægð frá verkstað.“

Miðað við erindi NLSH er verktíminn áætlaður 2018 – 2020, segir í minnisblaðinu. Miðað við útboð framkvæmda á árinu 2018 má reikna með að efni berist frá framkvæmdasvæðinu um eða upp úr næstu áramótum. „Þegar að framkvæmdir hefjast þarf verk að ganga hratt fyrir sig og ekki er hægt að geyma og vinna fyllingarefni á framkvæmdasvæði spítalans,“ segir þar.

Fá svæði koma til greina

Við skoðun á hugsanlegum landfyllingarsvæðum á og í grennd við hafnarsvæði Faxaflóahafna er ljóst að í Örfirisey eru engin svæði á aðalskipulagi ætluð til landfyllinga. Á Gelgjutanga er hugsanlegt að nota lítinn hluta efnis til landmótunar með ströndinni, en það svæði er utan þróunarsvæða Faxaflóahafna. Í Sævarhöfða er mögulegt að nota efnið til landfyllingar þegar Reykjavíkurborg ákveður að halda landfyllingu þar áfram. Ekki liggja fyrir niðurstöður umhverfismats fyrir síðari verkáfanga landgerðar. Þegar kemur að framkvæmdum í Vatnagörðum verður hægt að taka þar á móti talsverðu efni - en sú framkvæmd er ekki áætluð fyrr en einhvern tíma eftir árið 2020.

Á hluta strandlengjunnar með Klettagörðum er mögulegt að koma fyrir landfyllingu og tengja hana landi Faxaflóahafna í Sundahöfn, og er því metin hentug staðsetning fyrir nýja landfyllingu. Mögulegt væri að losa þar um 300.000 rúmmetra af efni, sem gæti orðið um 25.000-30.000 fermetra landfylling, sem tekið gæti þá tekið á móti öllu því efni sem flutt væri af lóð Landsspítalans.

„Fyllingin gæti einnig tekið við hluta burðarhæfs efnis af lóð á Kirkjusandi þegar framkvæmdir fara þar af stað og hugsanlega öðrum framkvæmdum í borgarlandinu,“ segir í minnisblaðinu en meðfram Klettagörðum frá hverfisverndarsvæði í Laugarnesi er grjótvörn sem höfnin raðaði þegar unnið var að framkvæmdum við Klettagarða. Ströndin, sem er um 300 - 400 metrar, er því hluti landgerðar sem unnin var á árunum 1990 -2000. Landfylling á þeim stað sem tilgreint er hefði ekki áhrif á hverfisverndarsvæðið í Laugarnesi, en væri í raun viðbót við landfyllinguna frá 1990 -2000.

Landfylling við Klettagarða

Eftirfarandi kæmi til greina þegar horft er til nýtingar landfyllingar við Klettagarða: a) Í Reykjavík eru Faxaflóahafnir sf. með tvær aðskildar starfsstöðvar í Hafnarhúsinu og Bækistöð við Fiskislóð. Aðstaða skipaþjónustu í Hafnarhúsinu er orðin erfið af ýmsum ástæðum m.a. vegna starfsmannaaðstöðu og aðkomuleiða. Því hefur verið skoðað hvar koma mætti starfseminni fyrir í Reykjavík og ná fram hagræðingu í rekstri undir sama þaki, á stað sem dugað gæti til lengri tíma fyrir fyrir sameinaða aðstöðu Faxaflóahafna sf. Með því að nýta um 10-15.000 fermetra lóð á landfyllingu væri unnt að koma fyrir skrifstofu, aðstöðu skipaþjónustu og aðstöðu bækistöðvar. Mögulegt væri einnig að útbúa aðstöðu fyrir dráttarbáta fyrirtækisins, sem væru þannig staðsettir miðsvæðis milli Sundahafnar og Gömlu hafnarinnar og af því rekstrarlegt- og umhverfislegt hagræði.

Ylströnd möguleiki

Samhliða yrði lóðaþörf Veitna skoðuð. Með yfirfallslögn hitaveitu mætti útbúa aðstöðu fyrir útivist við sjóinn, sem væri á um 10 - 12.000 fermetrum landfyllingarinnar.

„Ef settur yrði garður út með grynningum Laugarnestanga yrði til skýlt strandsvæði innan garðs. Rætt hefur verið um möguleika á ylströnd við Skarfaklett, þar sem nú er manngerð lítil vík með hvítum skeljasandi austan við skólphreinsistöðina. Borgarstjóri stofnaði starfshóp í október 2017 til að fullkanna og útfæra möguleika á að nýta umframvatn frá virkjunum eða borholum Orkuveitu Reykjavíkur til að skapa nýjar ylstrandir annars vegar við Gufunes og hins vegar við Skarfaklett. Svæðið við Skarfaklett, sem horft hefur verið til í þessu samhengi er hins vegar mjög lítið auk þess sem umferð er þar mikil vegna hafnarstarfseminnar, einkum að sumarlagi. Því væri ráð að hafa ylströndina frekar við grynningar út frá Laugarnestanga með aðkomu frá nýju fyllingunni.“

Liggur á

Niðurstaða stjórnenda Faxaflóahafna er ef að samþykki fæst fyrir landfyllingunni frá borgaryfirvöldum, þá sé næsta skref að gera breytingar á skipulagi til að gera ráð fyrir henni.

„Það ferli getur tekið þó nokkurn tíma og því er brýnt að hefja þá vinnu sem fyrst ef að taka á við efni frá Landspítalalóð og mögulega Kirkjusandi. Samþykki Reykjavíkurborgar og ákvörðun um málsmeðferð er forsenda þess að unnt sé að fara í nauðsynlegar skipulagsaðgerðir í þessu efni og sú vinna þyrfti að ganga snurðulaust fyrir sig til þess að framkvæmdin komi að gagni í tengslum við verkefni Nýs Landspítala,“ segir í niðurlagi minnisblaðsins.