Norsk stjórnvöld hafa á undanförnum árum ýtt úr vör ýmsum verkefnum sem stuðla eiga að aukinni fiskneyslu almennings þar í landi í lýðheilsuskyni. Nýjasta verkefnið lýtur að því að kenna börnum að elda fisk og hafa áhuga á að borða hann í auknum mæli. Í þessu skyni hefur verið ákveðið að verja sem svarar 90 milljónum íslenskra króna.

„Við vitum að börn og unglingar ættu að borða meira af fiski og því er mikilvægt að sýna fram á að sjávarafurðir séu góður matur. Gott matarræði fyrir yngri kynslóðina er ein besta fjárfesting til framtíðar sem völ er á,“ segir Per Sandberg, nýr sjávarútvegsráðherra Noregs, í frétt á heimasíðu ráðuneytisins.

Bent er á að margir landsmenn borði minna af fiski en heilbrigðisyfirvöld ráðleggi, sérstaklega yngra fólkið. Sannað sé að fiskur sé hollur, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu manna, og því sé skynsamlegt að byrja snemma að tileinka sér gott mataræði.