NAVIS hefur ásamt Naust Marine, Íslenska Sjávarklasanum/Green Marine Technology og NýOrku sótt um frumherjastyrk til Rannis til að hanna fyrsta hybrid-, eða tvinn-línuveiðibátinn á Íslandi. Hugmyndin er að hanna frá grunni 15 metra línubát sem getur gengið bæði fyrir rafgeymum og rafmótor eða dieselvél og síðar jafnvel fyrir rafmagni og metanóli en þá væri hægt að gera bátinn alfarið út með íslenskri orku.

„Í stað þess að setja þennan búnað í eldri bát viljum við hanna nýjan bát frá grunni þannig að hægt sé að nýta til fulls þá möguleika sem þessi tækni býður upp á,“ segir Hjörtur Emilsson framkvæmdastjóri NAVIS í frétt á vef fyrirtækisins . Hann segir hugmyndina að þessari umsókn hafa kviknað í framhaldi af meistaraverkefni sem Alexander Andersson skipaverkfræðingur hjá NAVIS vann ásamt samnemanda sínum við Chalmers háskólann í Gautaborg. Það verkefni fólst í að kanna hagkvæmni þess að setja tvinnkerfi í línuskipið Jóhönnu Gísladóttur GK sem er liðlega 56 metra langt.

30% eldsneytissparnaður

Nú á að skoða mun minni bát sem auk þess er hannaður frá grunni fyrir þessa tækni. „Það bendir allt til þess að með þessari hybrid tækni megi spara allt að 30% af eldsneytiskostnaði miðað við dieselolíu og þannig minnka kolefnisfótspor tilsvarandi og sé farið út í brennslu á metanóli verður hægt að minnka kolefnisfótsporið enn meira“ segi Hjörtur. Hann segir að til þessa hafi ekki hafi verið mikið hugað að orkunýtingu minni báta og smábáta. Bátar af þessari stærð séu margir gríðarlega afkastamiklir með stórar vélar og jafnvel með íslvélar um borð sem knúnar eru af dieselvélum.

„Við teljum tímabært að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvað nauðsynlegt sé að hafa um borð til að gera út á sem hagkvæmastan hátt.“ Hjörtur bendir á að með þessari hybrid tækni sé hægt að slökkva á dieselmótornum þegar komið er á miðin og nota hljóðlausan og mengunarlausan rafmótor á meðan veiðar fara fram. Það fer svo eftir aðstæðum hverju sinni hvort menn nota rafmagn eða diesel til að komast aftur í land. Hjörtur segist verða var við talsverðan áhuga bæði meðal sjómanna og útvegsmanna á þessum hugmyndum.