Samtök spænskra útgerðarmanna (CEPESCA) telja að framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunar innan Evrópusambandsins muni byggjast á framseljanlegum aflaheimildum í samræmi við reglur innri markaðar sambandsins. Hugsanlegar breytingar í þessa veru voru ræddar á aðalfundi Europesche sem haldinn var nýlega í borginni Cadiz á Spáni.
Á aðalfundi Europesche, sem eru samtök útgerðarfyrirtækja innan Evrópusambandsins, voru rúmlega 30 fulltrúar útgerðarfyrirtækja frá tíu aðildarríkjum ESB.
Í ályktun spænsku samtakanna (CEPESCA) er áréttað, að við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB sé nauðsynlegt að ákvarðanataka færist í auknum mæli frá efsta lagi stjórnsýslu sambandsins heim til fiskveiðiþjóða. Þá þurfi að koma á virku samráði svæðisbundinna stjórnvalda, vísindamanna og þeirra sem starfa í sjávarútvegi um ákvarðanir og leiðir við stjórn veiða.
Greint er frá þessu á vefsíðu LÍÚ og vísað í alþjóðlega sjávarútvegsvefinn fis.com .