Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåt) óska eftir því að norska sjávarútvegsráðuneytið taki upp viðræður við hagsmunasamtök í sjávarútvegi í Noregi um endurskoðun Smugusamningsins. Bent er á að fresturinn til að biðja um endurskoðun renni úti 1. júlí í ár, að öðrum kosti gildi hann áfram óbreyttur næstu fjögur árin.

Sem kunnugt er byggði Smugusamningurinn á því að Íslendingar hættu veiðum í Smugunni, alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi, gegn því að fá ákveðnar veiðiheimildir í norskri og rússneskri lögsögu. Á móti fengju Norðmenn svo línuveiði- og loðnuveiðiheimildir við Ísland.

Samtök norskra útvegsmanna eru þeirrar skoðunar að framferði Íslendinga síðustu árin, bæði í makrílviðræðunum, innan NEAFC og með því að takmarka möguleika norskra skipa til þess að veiða úthlutaða kvóta í íslenskri lögsögu, réttlæti kröfu um endurskoðun samningsins enn frekar.