Samtök norskra útgerðarmanna (Fiskebåt) telja að norskum stjórnvöldum beri að krefja Íslendinga um bætur vegna þess að norsk skip gátu ekki veitt nema lítið brot af loðnukvóta sínum í íslenskri lögsögu að þessu sinni.

Í bréfi samtakanna til norska sjávarútvegsráðuneytisins er bent á að um 35.000 tonn af norska kvótanum séu tilkominn vegna Smugusamninganna og næstum allt af því sé óveitt.

Norskir útvegsmenn eru þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld séu að stórum hluta ábyrg fyrir því að norsku skipin hafi ekki náð að fiska kvóta sinn vegna þeirra takmarkana í tíma og rúmi sem þau hafi sett veiðunum.

Sem bætur vilja þeir fá auknar botnfiskheimildir í íslenskri lögsögu og aukinn úthafskarfakvóta innan og utan lögsögu við Ísland. Benda þeir á það fordæmi að Ísland hafi úthlutað Norðmönnum rækjukvóta sínum við Flæmingjagrunn, 334 tonnum, eftir loðnuvertíðina 2008/09.