Fiskerirådet, ráðgefandi nefnd sem er skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka í útgerð og fiskvinnslu í Grænlandi, styður tillögu vinnuveitendasambands Grænlands, GA, sem hefur lagt til auknar þorskveiðar úti fyrir Vestur-Grænlandi sem mótvægisaðgerð við ráðleggingu fiskfræðinga um niðurskurð í rækjuveiðum.
Fiskfræðingar lögðu til í síðustu viku að dregið verði úr rækjuveiðum á næsta ári um fjórðung og veiðarnar fari úr 80 þúsund tonnum á þessu ári niður í 60 þúsund tonn á því næsta.
Rækjuveiðar skipta Grænlendinga miklu máli. Talið er að þorskur éti árlega 15 þúsund tonn af rækju. Það er einnig í þessu ljósi sem samtökin vilja leyfa auknar þorskveiðar og hafa til þess stuðning frá fyrirtækjunum KNAPK, Royal Greenland og Polar Seafood Greenland.
Fiskfræðingar hafa á hinn bóginn mælt gegn veiðum á þorski utanskerja á næsta ári, eins og úthafsveiðarnar eru kallaðar, því það gangi gegn ábyrgri uppbyggingu á þorskstofninum.
Tillögur GA þýða að farið yrði hægar í uppbyggingu á þorskstofninum því gert er ráð fyrir að leyfðar yrðu veiðar á 25 þúsund tonnum sem er 11% aukning frá því sem nú er. Fulltrúar GA telja engu að síður að tillögurnar rúmist innan ramma sjálfbærrar uppbyggingu stofnsins.