Matís, Reykhólahreppur og Þörungaverksmiðjan hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum á vegum nýstofnaðrar Þörungamiðstöðvar Íslands á Reykhólum.

Samstarfið verður um að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun úr þangi og þara með rannsóknum, fræðslu, nýsköpun og vöruþróun, að því er kemur fram í frétt Matís.

Þörungamiðstöð Íslands er ætlað að vera hlutafélag með lögheimili í Reykhólahreppi í eigu Þörungaverksmiðjunnar hf. og Reykhólahrepps sem og fleiri aðila. Samkvæmt drögum að stofnsamningi er tilgangur félagsins m.a. að stuðla að aukinni þekkingu og safna í þekkingarbanka um öflun og nýtingu sjávarþörunga við Ísland, bæði ræktaðra og villtra, stunda rannsóknir með áherslu á sjávarþörunga, vera í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fyrirtæki, veita þjónustu til rannsóknarstofnana og fyrirtækja  taka þátt í mennta- og fræðastarfi, efla ræktun þörunga og þróa afurðir úr þeim til að auka verðmætasköpun úr þessu sjávarfangi um leið og  stuðlað er að fjölbreyttari atvinnu í Reykhólahreppi.

Vinnsla í 50 ár

Saga þörungavinnslu á Reykhólum er orðin 50 ára og staðbundin þekking á auðlindinni hefur safnast upp, segir í fréttinni.

„Leitun er að heppilegri stað á landinu fyrir rannsóknastarfsemi og hagnýtri vöruþróun á sjávarþörungum. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök. Fram til þessa hefur Þörungaverksmiðjan stutt rannsóknir í firðinum með því að bjóða farartæki, reynda sæfara og öryggisbúnað til að athafna sig við rannsóknir. Byggst hefur upp mikil þekking á vinnsluferli  innan Þörungaverksmiðjunnar," segir í fréttinni.

Kemur einnig fram að með þátttöku í stofnun Þörungamiðstöðvar Íslands vill Þörungaverksmiðjan hf. efla stuðning við rannsóknir á auðlindinni og nýjar úrvinnsluleiðir, enda sé Reykhólahreppur heimavöllur hennar og íbúarnir undirstaða starfseminnar.

Vottað mjöl

Þörungaverksmiðjan  framleiðir og selur þurrkað og malað klóþang og hrossaþara úr Breiðafirði. Þörungamjölið er vottað sem óblönduð lífræn vara og sjálfbær uppskera, en með aukinni tækniþróun hafa skapast gríðarleg tækifæri til fjölbreyttari nýtingar á þörungum og vinnslu verðmætra efna í matvæla-, snyrti og lyfjaiðnað með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun.

Þörungamiðstöð Íslands í samstarfi við atvinnulífið, háskóla og rannsóknastofnanir er einmitt ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu sem hvílir á niðurstöðum rannsókna, auka þekkingu, veita fræðslu, fjölga atvinnutækifærum og verðmæti vöru sem unnin er úr þangi og þara.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvarinnar. Hún stýrði uppbyggingu á rannsóknastarfsemi í kringum sjávarútveg í Verinu á Sauðárkróki þar sem t.d. sprotafyrirtækið Protis var hleypt af stokkunum.