Samtök danska uppsjávariðnaðarins hafa tekið undir með Skotum og hvatt Evrópusambandið til að aflétta ekki innflutningsbanni á markíl og síld frá Færeyjum, að því er fram kemur í frétt á vef Undercurrent News.
Evrópusambandsríkin greiða atkvæði í dag, 31. júlí, um tillögu frá framkvæmdastjórn ESB um að aflétta viðskiptaþvingunum á Færeyinga. Framkvæmdastjórnin gaf út yfirlýsingu þess efnis í júní eftir að samkomlag náðist um síldveiðar Færeyinga. Færeyingar ákváðu þá að kvóti þeirra í norsk-íslensku síldinni yrði 40 þúsund tonn. Á síðasta ári settu Færeyingar sér einhliða 105 þúsund tonna kvóta.
Evrópskir fiskimenn segja að kvóti Færeyinga sé ennþá of mikill. Samkvæmt samkomulagi strandríkja ætti færeyski kvótinn að vera 21.600 tonn. Haft er eftir Esben Sverdrup-Jensen, framkvæmdastjóra samtaka í danska uppsjávariðnaðinum, að það skjóti skökku við að einn daginn sé það glæpur að tvöfalda kvóta sinn og ganga þar með of nærri fiskistofnum en annan daginn sé það allt í lagi.