Landssamband smábátaeigenda vill að bætt verði 2 þúsund tonnum við strandveiðipottinn og er óánægt með nýja reglugerð um strandveiðar sem felur í sér 400 tonna aukningu og tilfærslur á milli svæða.
„Þetta er ekki gert að beiðni okkar. Við viljum að bætt verði 2 þúsund tonnum af þorski inn í kerfið. Þá þurfa menn ekki að hafa neinar áhyggjur af því að veiðarnar stöðvist um miðjan mánuðinn eða jafnvel í byrjun mánaðar eins og verið hefur undanfarin ár. Viðbótinni ætti að deila þannig að öll svæðin hefðu nægilega mikið,“sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Fiskifréttir.
Árborg, félag smábátaeigenda á Suðurlandi hefur brugðist við ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að skerða aflaviðmiðun til strandveiða á svæði D.
Í ályktun sem Árborg hefur sent frá sér segir:
„Árborg, félag smábátaeigenda á Suðurlandi mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skera niður viðmiðunarafla til strandveiða á svæði D um 200 tonn og færa á önnur svæði.
Síðustu tvö ár hafa verið mjög erfið á svæðinu veðurfarslega í maí og júní. Í eðlilegu árferði er þörf á allri þeirri viðmiðun sem svæðið hefur haft. Árborg krefst þess að ákvörðunin verði dregin til baka.“