Víkingbátar ehf. hafa keypt Sómabáta ehf. Með kaupunum eignast Víkingbátar öll framleiðslumót Sómabáta, teikningar, vöruheiti og viðskiptasambönd. Jafnframt hefur Óskar Guðmundsson, fyrrverandi eigandi Sómabáta hafið störf hjá Víkingbátum.

Að sögn Júlíusar B. Benediktssonar, framkvæmdastjóra Víkingbáta, er þetta jákvætt skref í uppbyggingu Víkingbáta. Samhliða kaupunum tóku Víkingbátar yfir framleiðslu á báti fyrir náttúrufræðistofnun Grænlands. Sá bátur er af gerðinni Sómi 870 og verður hann sérstaklega útbúinn til siglinga við ísi lagðar strendur Grænlands við nátturufræðirannsóknir.

Víkingbátar ehf. hófu starfsemi fyrr á þessu ári en árið 2012 var keypt allt lausafé, teikningar og vörumerki úr þrotabúi Samtaks ehf. sem framleitt hafði fiskibáta og ferjur undir heitinu „Víkingur“ frá árinu 1984. Framleiðsla Víkingbáta hófst í maí á þessu ári en þá var var samið um smíði á 13 metra löngum, yfirbyggðum Víkingi til Vardø í Noregi. Kaupandinn er Kent Are Esbensen en þetta er í annað sinn sem hann kaupir íslenskan hraðfiskibát.

„Víkingbátar eru í dag með reynslumikinn hóp manna í sölu, hönnun og smíði báta en samtals hafa yfir 700 Víking- og Sómabátar verið framleiddir,“ segir Júlíus.