Á víetnömskum vefsíðum hefur verið birt myndband sem sagt er sýna kínverskt skip sigla niður víetnamskan bát í Suður-Kínahafi, en deilur hafa staðið milli landanna um yfirráð yfir viðkomandi hafsvæði. Skipverjarnir á víetnamska bátnum björguðust allir.
Af hálfu kínverskra stjórnvalda er því haldið fram að víetnamska bátnum hafi hvolft þegar hann var að angra kínverska bátinn sem leitt hafi til áreksturs. Víetnamski báturinn hafi verið ólöglegur í kínverskri lögsögu og beri því alla sök.
Víetnamska strandgæslan fullyrðir hins vegar að 40 kínversk fiskiskip hafi umkringt víetnamska bátinn áður en ráðist hafi verið á hann.
Deilan milli ríkjanna snýst um lögsögu yfir hafsvæði sem Kínverjar eru að hefja olíuboranir á.
Sjá myndbandið af umræddum árekstri HÉR.