Áhöfn Hákons ÞH, nýju uppsjávarskipi Gjögurs hf., leitaði til hafnar í Þórshöfn í Færeyjum rétt fyrir hádegi eftir að vart varð viðvarana um vélarbilun í skipinu þegar það var rétt sunnan Færeyja. Fyrir helgi lagði skipið af stað áleiðis frá Skagen á Jótlandi, og var áætlað að það yrði í Reykjavíkurhöfn á morgun. Skipið er smíðað hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Skagen sem smíðað hefur fjölda skipa fyrir íslenskar útgerðir. Gekk heimsiglingin vel í blíðuveðri þar til viðvörunarkerfið fór í gang.

Arnþór Pétursson skipstjóri segir að lítilsháttar viðvaranir hafi farið í gang og þar sem skipið er í ábyrgð var ákveðið að stoppa í Þórshöfn. Viðvaranirnar voru í vélarkerfi skipsins. Hann sagði að ekki væri enn þá vitað nákvæmlega um hvað málið snýst. Verið sé að kanna það nánar í Færeyjum.

„Heimkoman frestast eitthvað en ég held að þetta sé ekkert alvarlegt. Skipið er nýtt en eigum við ekki að segja að fall sé fararheill,“ segir Arnþór.

Síðasta spölin til Færeyja var keyrt á ljósavélinni sem framleiðir rafmagn sem knýr skrúfuna. 12 manns eru í áhöfninni núna á heimsiglingunni en alls verða níu í áhöfn þegar skipið er á trollveiðum og 12 þegar veitt er í nót. Arnþór segir best að segja sem minnst um hvenær skipið komi heim. Það er í ábyrgt og farið er eftir fyrirmælum skipasmíðastöðvarinnar um framhaldið.