Guðmundur Þórðarson, aðalsamningamaður Íslands, segir að ennþá beri alltof mikið á milli. Ekki sé stefnt á fundi fljótlega, en þráðurinn verði tekinn upp í haust.
„Það var samdóma álit allra samninganefndanna að taka hlé fram á haust, næsti fundur er fyrirhugaður í lok september.“
Bretar hafa stýrt samningaviðræðunum undanfarið og lagt mikla áherslu á að samkomulag takist, en nú taka Íslendingar við formennsku í viðræðunum.
Samið um eftirlit
Í nóvember síðastliðnum tókst hins vegar samkomulag strandríkjanna um um samrýmdar reglur varðandi framkvæmd vigtunar, skráningar og eftirlits með uppsjávarstofnum.
Fiskstofnarnir sem um ræðir eru makríll, kolmunni, norsk íslensk vorgotssíld og hrossamakríll og undir þetta samkomulag hefur Ísland skrifað ásamt Noregi, ESB, Færeyjum, Grænlandi og Bretlandi.
Matvælaráðuneytið segir þetta samkomulag koma til með „að samræma leikreglur veiðiríkjanna, auka traust um veiðar á uppsjávarfiski og auðvelda eftirlit með löndun á uppsjávarafla. Ísland uppfyllir þegar flestar þær reglur sem samkomulagið nær til, en stærsta breytingin innanlands mun verða sú að uppsjávarafla skal vigta við löndun aflans.“
Þriggja ára aðlögunartími
Ríkin fá rúman tíma til að uppfylla ákvæði samkomulagsins, því ekki er gert ráð fyrir að því verði lokið fyrr en 1. janúar 2026. Matvælaráðuneytið segir að vinna sé hafin við að uppfæra reglugerðir í samræmi við samkomulagið. Þær verði birtar í samráðsgátt stjórnvalda.
Mörg undanfarin ár hafa strandríkin komið sér saman um að miða heildarveiði úr makrílstofninum við ráðgjöfina frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), en ekkert samkomulag hefur verið um hvernig þau ætli að skipta heildaraflanum á milli sín. Þess í stað hafa þau tekið sér einhliða kvóta, hvert fyrir sig, með þeim afleiðingum að samtals hafa þau veitt töluvert meira en ráðgjöfin segir til um.
Árið 2020 nam heildarveiðin 120 prósentum af ráðgjöfinni, og árið 2021 varð hún rúm 140%. Umframveiðin árið 2020 nam 182 þúsund tonnum og 2021 nam hún 354 þúsund tonnum.