Rauðmagi sem merktur var með rafeindamerki fyrir norðan Skaga í vorralli Hafrannsóknastofnunar veiddist 19 dögum síðar norðan við Drangsnes. Frá þessu er greint á vef BioPol sem annast rannsóknir á hrognkelsum í samstarfi við Hafró.

Merking rauðmaga
Merking rauðmaga
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Undanfarin ár hafa grásleppur verið merktar með rafeindamerki. Merkin safna mikilvægum upplýsingum, meðal annars um far fiskanna. Ekki er vitað til þess að upplýsingum varðandi ferðir rauðmaga hafi áður verið aflað með þessum hætti.

Ferðir rauðmaga
Ferðir rauðmaga
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Merkti rauðmaginn ferðaðist mikið á þessum 19 dögum. Hann veiddist um 81 kílómetra frá merkingarstað miðað við beina línu. Hann var ýmist uppi í sjó eða á miklu dýpi og fór alveg niður á 280 metra dýpi.

Meðfylgjandi eru myndir af vef BioPol sem sýna annars vegar hvar rauðmaginn var merktur og hvar hann veiddist og hins vegar línurit af ferðum hans upp og niður í sjónum.