Fyrir meira en þúsund árum snæddu íbúar í Heiðabæ hertan þorsk sem að öllum líkindum hafði verið veiddur skammt frá Lofoten í norðanverðum Noregi. Heiðabær var danskur verslunarstaður syðst á Jótlandi og tilheyrir nú Þýskalandi. Danska nafnið er Hedeby en í Þýskalandi heitir staðurinn Haithabu.

Þorskbein sem fundust við fornleifauppgröft þar hafa verið grandskoðuð og nú hefur vísindamönnum við Óslóarháskóla tekist að rekja uppruna þessara ævagömlu harðfiskleifa.

Það var gert með svonefndum fornerfðarannsóknum, þannig að erfðaefni úr fiskbeinunum frá Heiðabæ voru borin saman við erfðaefni úr fiskum sem nú veiðast við Lofoten og víðar.

Það var norski vísindamaðurinn Bastiaan Star við Óslóarháskóla sem stýrði rannsókninni og birti nýverið, ásamt félögum sínum, grein um niðurstöðurna í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar, PNAS.

Víkingar fóru víða

Vitað er að víkingar fóru víða og til eru ritaðar heimildir um ferðalög frá Lofoten til Heiðabæjar frá því fyrir landnám Íslands. Til þessa hefur þó ekki verið hægt að fullyrða að fiskur hafi verið fluttur þessa löngu leið fyrr en á þrettándu öld.

Með þessari nýju rannsókn er komin staðfesting á því að það hafi gerst strax upp úr aldamótunum 800.

„Uppgötvun okkar á auðkennandi litningabreytingum í ævagömlum þorsksýnum hefur loks gert okkur kleift að svara þeirri spurningu hvort hertur þorskur hafi verið fluttur frá Norður-Noregi á víkingatímanum,“ segir í greininni í PNAS, sem birtist í byrjun ágúst.

Auk norskra vísindamanna unnu að rannsókninni vísindamenn við Oxfordháskóla á Bretlandi og vísindamenn í Slésvík i Þýskalandi, þar sem nú er merkilegt safn um víkingatímann á þeim stað þar sem Heiðabær stóð til forna.

Óttar frá Hálogalandi
Athyglin beindist að Heiðabæ meðal annars vegna þess að í fornum handritum er greint frá því að víkingahöfðingi mikill hafi komið þangað með varning frá Noregi. Sá höfðingi var Óttar frá Hálogalandi, sem sagt er frá í ferðasögu Elfráðs konungs.

Heiðabær var samt ekki eini staðurinn, þar sem matarleifar frá fornri tíð fundust sem ástæða þótti til að skoða. Star og félagar gerðu DNA-rannsóknir á þorskbeinum sem fundust í fornleifum á samtals fimm stöðum. Auk Heiðabæjar voru skoðuð bein frá öðrum stað í Slésvík, ekki langt frá Heiðabæ, ásamt beinum sem fundust við fornleifauppgröft í Orkneyjum, Ósló og Bjørkum í Noregi. Bein þessi reyndust öll vera frá tímabilinu frá 800 til 1066.

Erfðaefni úr þessum beinum voru síðan borin saman við nútímaþorska sem veiðst höfðu við Ísland, í Barentshafi, við Lofoten, í Norðursjó, Skagerrak, Kattegat, Eyrarsundi og Eystrasalti. Við Lofoten veiðist enn í dag þorskur sem hefst að mestu við í Barentshafi en kemur til að hrygna út af Lofoten.

„Heiðabær var mikilvæg verslunarmiðstöð snemma á miðöldum. Staður þar sem norðrið mætti suðrinu, heiðnir mættu kristnum, og þeir sem notuðu mynt mættu þeim sem notuðu silfur eftir vigt,“ er haft eftir James Barrett, einum höfunda rannsóknarinnar, í frásögn á vef Cambridge-háskóla í Bretlandi.

Tengdu saman Evrópuþjóðir

„Seldur og keyptur fiskur var ein fyrsta varan sem tengdi Evrópuþjóðir saman efnahagslega,“ segir Barrett. „Niðurstöður okkar benda til þess að þörfin fyrir þetta heimskautaprótín hafi strax verið tekin að hafa áhrif á efnahag og vistfræði Evrópu á víkingatímanum.“

Hann segir að heimur víkinganna hafi verið flókinn og tengst innbyrðis með margvíslegum hætti: „Þetta var heimur þar sem höfðingi frá norðanverðum Noregi getur hafa deilt harðfiski með Alferð mikla á meðan verið var að þýða latínutexta frá síðfornöld á bak við þá.“

Bastiaan Star, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að fiskveiðar, aðallega þorskveiðar, hafi árþúsundum saman skipti miklu máli fyrir byggð í Noregi. Með því að stunda landbúnað á sumrin og fiskveiðar á vetrum hafi verið hægt að halda úti byggð þar býsna norðarlega.

„Við viljum vita hvaða áhrif þessi mikla auðlindanýting árþúsundum saman hafi haft á Atlantshafsþorskinn, og við notum aðferðir fornerfðagreiningar til að rannsaka þetta,“ segir Star.

[email protected]