Viðey er síðasta skipið í röð þriggja nýrra ísfisktogara sem Celíktrans skipasmíðastöðin í Istanbúl smíðaði fyrir félagið. Fyrr á þessu ári komu systurskipin Engey og Akurey til landsins. Áður voru uppsjávarskipin Venus NS og Víkingur AK smíðuð fyrir HB Granda hjá sömu stöð.
Auk forráðamanna skipasmíðastöðvarinnar voru viðstaddir brottförina frá Tyrklandi m.a. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, Torfi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri botnfiskssviðs, Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs, Jónas Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og Alfreð Tuliníus, framkvæmdastjóri Nautic ehf., sem sá um hönnun ísfisktogaranna.
Heimsiglingin verður í höndum Jóhannesar Ellerts Eiríkssonar skipstjóra og hans manna en auk skipstjórans eru í áhöfninni á heimsiglingunni þeir Pétur Pétursson, 1. stýrimaður, Guðlaugur L. Sveinsson, 2. stýrimaður, Sigurður Jónsson, matsveinn, Ægir Karl Kristmannsson, yfirvélstjóri, Örn Eysteinsson, 1. vélstjóri, Rafnkell Kristján Guttormsson, 2. vélstjóri og Sveinn Kristján Sveinsson sem sér um fjarskiptabúnað.
Í ráði er að formleg móttaka vegna komu Viðeyjar til heimahafnar í Reykjavík verði þann 22. desember nk.