Viðey RE, síðasti ísfisktogarinn í þriggja skipa raðsmíðaverkefni HB Granda, kom til Reykjavíkurhafnar í gær. Á síðasta ári tók HB Grandi við ísfisktogurunum Engey RE og Akurey AK og á árinu 2015 komu til landsins uppsjávarveiðiskipin Venus NS og Víkingur AK. Þar með lýkur stærsta fjárfestingarverkefni fyrirtækisins frá upphafi. Samtals nam kostnaður við smíði skipanna um 14 milljörðum króna.

[email protected]

Kostnaður við smíði á Viðey RE hleypur á um 2.340 milljónum króna. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir tímamótin við komu Viðeyjar öllu stærri en við komu fyrri skipa enda sjái nú fyrir lokin á þessu mikla fjárfestingarverkefni sem hófst með undirskrift samninga við skipasmíðastöðina Céliktrans í Tyrklandi í ágúst 2014.

Einfaldar veiðistjórnun til muna

„Það sem vinnst með endurnýjun ísfisktogaraflotans er náttúrulega mikill olíusparnaður í útgerð skipanna. Við erum að láta frá okkur þrjú eldri skip sem koma úr sitthvorri áttinni sem öll eru með mismunandi vélum og búnaði sem er orðinn erfiður í viðhaldi. Þeir sem hafa séð um þessi eldri skip hjá okkur í skipaeftirlitinu hafa verið kallaðir fornleifafræðingar. Þeir hafa þurft að leita víða eftir varahlutum í skipin og það var orðið mjög erfitt að finna þá. Nú höfum við fengið ný skip sem eru öll eins sem auðveldar mjög allt viðhald, eftirlit og rekstur. Eldri skipin báru frá 120 tonnum og upp í 180 tonn en nú bera öll skipin sem við gerum út 180 tonn. Þetta einfaldar til muna veiðistjórnunina og býður upp á betri skipulagningu við alla vinnslu og meðferð afla. Aðbúnaður áhafnar er þess fyrir utan algjör bylting,“ segir Vilhjálmur.

Skipin eru búin öllum nýjasta búnaði og segir Vilhjálmur að búið sé að taka út öll erfiðustu störfin. Störfin felist núna að meira eða minna leyti í eftirliti. Eina handavinnan sem er eins í nýju skipunum og þeim eldri sé sjálf aðgerðin. Aðbúnaður og aðstaða til aðgerðar sé á hinn bóginn mun betri en áður var og vinna í lest heyrir sögunni til. Vinnslulína og kælibúnaður sé auk þess mun öflugri.

Jafnari og meiri gæði

Engey RE, sem var afhent í janúar á síðasta ári, hefur verið við veiðar frá því síðastliðið sumar. Akurey AK fer svo í rekstur í byrjun næsta árs. Vilhjálmur segir reynsluna af Engey það sem af er vera góða. Það hafi verið vitað að það tæki sinn tíma að láta nýjan búnað virka eins og til er ætlast.

„Það er ljóst að nýjungar eins og sjálfvirka karafærslukerfið eru að ganga upp. Við horfum fram á að nýju skipin skili jafnari og meiri gæðum og það er reynsla okkar af Engey. Þegar fram í sækir felst ávinningurinn einnig í því að við stöndum framar en aðrir í röðinni á markaðnum og auðveldara verður að selja afurðirnar.“

Framundan er að setja vinnslubúnað í Viðey á Akranesi og má búast við að það verk taki tvo til þrjá mánuði. Vilhjálmur kveðst gera ráð fyrir því að skipin haldi á veiðar í mars eða apríl á næsta ári.