Rétt vika er í að grásleppuvertíðin hefjist. Eins og um loðnuvertíðina eru grásleppuveiðar gríðarlega mikilvægar fyrir hinar dreifðu byggðir, sjómenn og alla þá sem koma að vinnslu, þjónustu og meðhöndlun aflans. Á vertíðinni 2018 voru 222 bátar á veiðum og ætla má að á þeim hafi verið á sjötta hundrað sjómanna.
Mikil verðmæti í grásleppunni
Aflaverðmæti á vertíðinni var rétt undir einum milljarði og útflutningsverðmæti 2,2 milljarðar. Það er þó nokkuð frá metárinu 2010 þegar það nam 3,8 milljörðum og fjöldi báta 344. Reikna má með að vertíðin sem hefst 20. mars verði ekki síðri en í fyrra. Markaðir fyrir grásleppukavíar og frosna grásleppu eru í jafnvægi. Verð hækkaði á báðum vörunum milli áranna 2017 og 2018.
Reglugerð um hrognkelsaveiðar
Reglugerð um hrognkelsaveiðar 2019 er að mestu óbreytt frá síðasta ári. Nokkrar minniháttar breytingar hafa verið gerðar sem vert er að vekja athygli á.
Fjöldi veiðidaga við upphaf vertíðar 25, 5 fleiri en undanfarin ár. Veiðitímabil er samræmt og lengt á öllum svæðum nema í innanverðum Breiðafirði. Veiðar hefjast 20. mars og lýkur 30. júní, ná yfir 103 daga í stað 85 eins og verið hefur undanfarin ár. Í innanverðum Breiðafirði eru engar breytingar frá í fyrra, 20. maí er upphafsdagur og 12. ágúst lokadagur.
Áherslur LS
Það voru Landssambandi smábátaeigenda (LS) vonbrigði að ráðuneytið féllst ekki á eftirtalið:
A. Heimilað yrði að sameina leyfi. Til að koma í veg fyrir sóknaraukningu mundu viðbótardagar skerðast um helming við sameiningu leyfa tveggja jafnstórra báta. Breytingin hefði komið í veg fyrir óhagræði sem hlýst að því að gera út tvo báta. Samkvæmt reglugerð er óheimilt að hefja veiðar með yfirtöku hrognkelsaneta í sjó og skal merkingu veiðarfæra að fullu frágengin í landi áður en veiðar hefjast.
B. Að hægt væri að gera hlé á veiðum þrátt fyrir að veiðileyfi væri gefið út til ákveðins fjölda samfelldra daga. Taka upp net þegar fyrirsjáanlegur óveðurskafli væri í aðsigi og ef óvæntur meðafli gerði vart við sig.
C. Að upphafstími veiða í Faxaflóa næði til alls svæðisins, en nú er óheimilt að hefja veiðar fyrr en 7. maí á fengsælu svæði við land norður af Akranesi.
LS hefur óskað eftir rökstuðningi frá ráðuneytinu hvers vegna ekki var fallist á þessar tillögur.
Stjórnun veiðanna
Undanfarin 40 ár hefur grásleppuveiðum verið stjórnað með sóknar- og svæðatakmörkunum. Ákveðið tímabil sem hver aðili má stunda veiðar með takmörkunum á fjölda neta, veiðileyfi gefið út til veiða á ákveðnu veiðisvæði og veiðarnar eingöngu heimilaðar smábátum. Árið 1991 bættist við að þeir einir fengju veiðileyfi sem stundað hefðu veiðar að minnsta kosti eitt ár tímabilið 1987 – 1990 að báðum árum meðtöldum. Þá voru einnig settar takmarkandi reglur um stækkun báta. Auk þessara takmarkana hafa markaðir haft áhrif á hversu mikið hefur verið veitt hverju sinni.
Ráðgjöf Hafró bætt við
Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fiskveiðiárið 2011/2012 var vitnisburður gefinn fyrir framangreinda stjórnun veiðanna. „Þó að þetta virðist hafa gefið nokkuð góða raun sem veiðistjórnun hafa á síðustu árum komið fram ýmis atriði sem valda áhyggjum. Þau eru helst aukin sókn, lækkun afla á sóknareiningu, lækkun stofnvísitalna beggja kynja og hækkun vísitölu veiðihlutfalls. Því er ljóst að þörf er á markvissari stjórnun hrognkelsaveiðanna.“
Ákvörðunin leiddi til þess að grásleppunefnd LS bætti þætti Hafró við þegar tekin var ákvörðun um tillögu til ráðuneytis um fjölda veiðidaga. Ánægjulegt er að greina frá því að svo vel hefur tekist til með þessa tilhögun að mismunur á heildarafla og ráðgjöf síðastliðin 8 ár er vart mælanleg, ráðgjöf 40.100 tonn afli 39.800. Í ráðgjöf Hafró um ástand stofnsins sagði 4. apríl 2018; „Lífmassavísitala grásleppu hækkaði árin 2013-2015, en hefur lækkað frá 2016 og er nú nálægt meðaltalinu frá 1985“.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna