„Þetta er ekki nóg til að tryggja strandveiðarnar út ágúst. Þetta hjálpar aðeins og það er fínt að það sé komið, en meira þarf en þetta,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um viðbótarheimildir til strandveiða.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið það út að 720 tonnum verði bætt við heildaraflamagn til strandveiða á þessu fiskveiðiári. Heildarþorskafli leyfilegur verður þá 10.720 tonn en annar botnfiskur í þorskígildum talið sem fyrr 1.100 tonn.
Þann 20. júlí rann út frestur til að segja sig frá strandveiðum frá og með 1. ágúst. Vegna viðbótarinnar hefur Fiskistofa nú gefið þeim sem óskuðu eftir að hætta kost á því að afturkalla þá ósk sína.
Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar hjá Fiskistofu um fjölda þeirra sem óskuðu eftir að hætta, en að sögn starfsmanns á Fiskistofu er hugsanlegt að þeir muni sumir heldur kjósa að fara á makrílveiðar í ágúst jafnvel þótt strandveiðiheimildir myndu duga út mánuðinn.
Kristján Þór hefur einnig undirritað reglugerð um ráðstöfun þeirra 4.000 tonna af makríl sem koma í hlut skipa í B-flokki gegn gjaldi.
Einhverjir stefna á makrílinn
„Einhverjir stefna á makrílinn, enn aðrir freista þess að fá sér kvóta en mér skilst að það sé nú afskaplega lítið fáanlegt af því,“ segir Örn. „En þeir eru alla vega ekki lokaðir inni í kerfinu allan ágúst mánuð. Þeir sem eru á strandveiðunum lifa aftur á móti í þessari óvissu að verða ef til vill stoppaðir í ágúst, en það er vonandi að það verði hægt að úthluta þannig að það gerist ekki.“
Örn segir strandveiðarnar í sumar hafi gengið mjög vel en í fyrra hafi ekki tekist að ná því sem heimild var til að veiða.
„Við töldum það alveg eðlilegt þá og einsýnt að það ætti að flytja það yfir á þetta ár eins og gert er með allar aflaheimildir sem nýtast ekki, en það hefur enn ekki verið gert. Núna gengur þetta betur, og þá kemur í ljós að það sem er ætlað til strandveiða er ekki nógu mikið til að tryggja það sem lagt var upp með. Þess vegna þarf að vera sveigjanleiki í þessu þannig að það verði alltaf tryggt að veiðarnar verði út allan ágústmánuð,“ segir Örn.
„Síðan þegar maður fer að hugsa lengra eins og hver staðan verði hérna í þjóðfélaginu í haust fyndist mér nú ekkert óeðlilegt að það verði rætt að framlengja strandveiðar, hafa þær eitthvað inn í næsta fiskveiðiár og skapa þannig atvinnu fyrir fólk. Það eru um 660 aðilar sem eru byrjaðir veiðar og það munar nú um slíkt.“