,,Ef spár um bráðnun rætast verða gríðarlega stór svæði á norðurskauti, ekki síst norðan við Síberíu, íslaus eftir miðja þessa öld. Þar er að finna víðáttumikið landgrunn þar sem myndast geta gríðarlega stór og verðmæt fiskimið, jafnvel þó stærstur hluti heimskautasvæðanna geti verið fæðusnauð vegna strauma og annarra aðstæðna.“
Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar bendir á þetta í viðtali í nýútkomnu Tímariti Fiskifrétta.
Jóhann segir gott dæmi um breytingarnar sem gætu verið í vændum að fyrir austan Beringssund sé öflugur loðnustofn sem að öllum líkindum muni flytja sig vestar þegar ísinn bráðnar. „Tilfærsla þessa stofns og flutningur og breyting á stærð loðnustofnsins við Ísland mun hugsanlega leiða til ágreinings í framtíðinni um hver má veiða hvað og hvar. Þetta á ekki bara við um loðnu, því ufsastofninn og ískóðin úr Norður-Kyrrahafi gætu einnig náð að hasla sér völl í Íshafinu. Síldar- og þorskstofnar úr Norður-Atlantshafi gætu einnig stækkað eða breytt um útbreiðslu og þá rísa spurningar um veiðirétt og hlutdeild í afla.“
Sjá nánar viðtal við Jóhann um áhrif hlýnunar sjávar á norðurslóðum í Tímariti Fiskifrétta.