Viðar Engilbertsson hefur verið ráðinn sem sölustjóri Wisefish. Hann mun stýra sölustarfi félagsins og styðja við áframhaldandi sókn þess á bæði innlenda og erlenda markaði.

Viðar stundaði meistaranám í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum og er einnig með meistaragráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu úr sjávarútveginum og hefur meðal annars starfað hjá Skaginn 3X, Samtökum fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS) og síðast sem sölu- og markaðsstjóri hjá Vélfagi.

Wisefish er leiðandi í viðskiptalausnum fyrir aðfangakeðju sjávarútvegs- og eldisfyrirtækja. Lausnir Wisefish hafa verið í stöðugri þróun í yfir tvo áratugi og eru nýttar í mörgum af stærstu sjávarútvegsfélögum Íslands sem og í fjölda annara landa. „Það er mér sönn ánægja að taka þátt í þessari vegferð sem Wisefish er á og fá að styðja við sókn fyrir þessar einstöku lausnir. Fyrirtækið hefur undanfarin ár fjárfest í mikilli vöruþróun, meðal annars glænýja eldislausn sem við kynnum til leiks á næstu misserum sem mun gera eldisfyrirtækjum kleift að fá fjárhagslega yfirsýn og rekjanleika fyrir alla virðiskeðjuna, allt frá hrognum til lokaafurðar. Wisefish er með ríkjandi markaðshlutdeild hér heima og teljum við að við erum með mikil sóknartækifæri á erlendum mörkuðum.“ segir Viðar.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Viðar til liðs við núverandi starfsfólk sem býr yfir áratuga reynslu. Virðiskeðja sjávarafurða getur verið afar flókin en hlutverk Wisefish er að einfalda líf viðskiptavina með yfirsýn sem skilar sér í aukinni hagkvæmni, betri ákvörðunartöku ásamt því að standast markaðskröfur um gæðavottanir, rekjanleika og sjálfbærni. Með góða innsýn í markaðinn og skýran fókus á okkar sérstöðu, er ég sannfærður um að Viðar mun hafa jákvæð áhrif á fyrirtækið og styðja enn frekar við vöxt félagsins” segir Siggeir Örn Steinþórsson framkvæmdastjóri vörustýringar, sölu og markaðsmála Wisefish.