„Við byrjuðum á honum um miðjan nóvember og vorum eitthvað fram eftir vetri, en svo tók ég til við hann aftur núna. Þetta voru einir þrír mánuðir,“ segir Hafliði.
Báturinn er meðal þeirra allra elstu hér á landi, smíðaður árið 1885 í Bjarneyjum á Breiðafirði og smiðurinn var að öllum líkindum langalangafi Hafliða, Bergsveinn Ólafsson.
„Við skiptum um allar spýturnar í honum. Það voru eftir þóftur og snældur sem halda þóftunum uppi í miðjunni úr gamla bátnum, en þegar við fórum að eiga við byrðinginn þá var þetta orðið svo þurrt og feyskið að þetta molnaði í höndunum á okkur.“
Sjálfur er Hafliði alinn upp á Hvallátrum þar sem bæði faðir hans og afi smíðuðu og gerðu við báta.
Hafliði lærði á sínum tíma húsasmíði og vann við það megnið af starfsævinni. Bátasmíði stundaði hann eitthvað með náminu og fyrst eftir það, en breytti svo til og fór í vélavinnu.
„Ég var með bíladellu en svo fékk ég nóg af því og fór þá að smíða aftur. En þá voru menn komnir í plastið og ég fór aldrei í það. Þetta var samt alltaf annars lagið og núna í seinni tíð hef ég sinnt þessu talsvert, hef verið núna ein tíu, tólf ár í þessu.“
Haga sér öðru vísi á sjónum
Vilja menn ekkert nota trébáta lengur?
„Jú jú,“ segir Hafliði. „Hvalaskoðun hefur bjargað mörgum stærri bátunum og strandveiðin er búin að bjarga nokkrum af þessum minni. En það er aðeins meiri vinna að viðhalda þessum bátum en plastbátunum. Maður skilur það alveg. En svo segja menn að það sé allt öðru vísi að vera á þessu. Þeir hagi sér öðru vísi á sjónum. Þeir reka hægar á skakinu til dæmis, en svo þegar menn þurfa að komast hratt á miðin og til baka þá er betra að vera á plastbátunum.“
Hann segir bátasmíði vera hverfandi starfsgrein, enda þótt nokkrir Íslendingar sinni þessu og fáeinir hafi lært bátasmíði á síðustu árum. Auk þess sé erfitt að fá fjármagn til þess að sinna fornbátum hér á landi, viðhaldi þeirra og endurgerð.
„Við höfum fengið nokkur verkefni sem við fáum greitt fyrir, en þetta er mikið sjálfboðavinna. Þegar maður er kominn á eftirlaun þá leyfir maður sér það.“
Næsta verkefni Hafliða verður Sæbjörg BA 59, sem er 15 tonna trébátur frá árinu 1972.
„Þetta er hörkuverkefni að fara í hann,“ segir Hafliði en veit ekki alveg hve langan tíma það tekur að gera bátinn upp.
Bátafriðunarsjóð vantar
„Við gerðum verkáætlun einu sinni, og þá var það vélbúnaðurinn sem átti að taka mesta tímann. En það væri hægt að gera þetta nothæft á einum vetri, fimm til sex mánuðum.“Hafliði segir tvímælalaust vera mikilvægt að vernda gömlu bátana, þeir séu ekki síður merkar fornminjar en gömul hús.
„Nei, maður lifandi. Það væru engin hús ef það hefðu engir bátar komið með efnið. Húsfriðunarsjóður er til og það þyrfti að vera sérstakur bátafriðunarsjóður,“ segir hann. „Það er verið að vinna að því að stofna sérstakan sjóð um þetta. Við höfum verið að sækja um í fonrleifasjóð en þar eru allir fornleifafræðingar að sækja um.“
Einhver hreyfing var á málinu á Alþingi í vetur og lagðar fram tvær þingsályktunartillögur um efnið, en það datt allt upp fyrir þegar COVID-19 faraldurinn lamaði þingstörfin.
„Þetta verður samt örugglega tekið upp aftur.“