„Við lítum svo á að verið sé að flæma okkur vestur, enda er kerfið sett upp þannig að það nýtist Vesturlandi og Vestfjörðum best,“ segir Baldur Guðmundsson sem ásamt Guðmundi Baldurssyni föður sínum stundar strandveiðar frá Kópaskeri.

Feðgarnir voru að sögn Baldurs skammt á veg komnir í sinni veiði í sumar þegar heildarkvótanum í þorski sem strandveiðimenn landsins skipta á milli sín var náð og vertíðinni lauk 11. júlí síðastliðinn. Vonir um að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra myndi gefa út viðbótarkvóta rættust ekki.

Drógu stutta stráið

„Þetta er glatað. Við pabbi erum búnir að ákveða að gerast flóttamenn og færa okkur eitthvað á Snæfellsnesið eða til dæmis í Sandgerði næsta sumar,“ segir Baldur. Að óbreyttu geti þeir ekki gert út frá Kópaskeri.

„En ef kerfinu verður á einhvern hátt breytt eða tryggðar auknar aflaheimildir, lengri tími eða ákveðinn fastur dagafjöldi þá horfir það allt öðruvísi við,“ segir Baldur.

Að sögn Baldurs snerist frumvarp sem matvælaráðherra lagði fram á Alþingi í vetur  um að strandveiðiaflanum yrði skipt á milli landshluta í hlutfalli við fjölda báta. Hvert svæði fengi sínar heimildir og gæti veitt á sínum besta tíma.

„Það frumvarp dó í atvinnuveganefnd vegna ósamstöðu. Austurhelmingur landsins dró þess vegna stutta stráið enn eitt árið. Fyrir vikið mun strandveiðimönnum á svæði C sennilega fækka enn á næsta ári. Þeim fækkaði úr 118 í 104 fyrir þetta ár,“ bendir Baldur á.

Bæti við sex þúsund tonnum

Sjálfur kveðst Baldur hafa stutt frumvarp matvælaráðherra og það sama hafi nær allir á svæði C gert. Enda hefði það jafnað leikinn frá því sem nú sé.

Baldur Guðmundsson. Mynd/Aðsend
Baldur Guðmundsson. Mynd/Aðsend

„En einfaldari aðgerð væri að standa við 48 daga kerfið og bæta við sex þúsund tonnum. Þær heimildir er til dæmis hægt að finna í ónýttum byggðakvóta eða ónýttri VS-heimild. Með þeim hætti væri ráðherra ekki að fara gegn vísindalegri ráðgjöf og stuðla að ofveiði,“ segir Baldur.

Strandveiðinni lauk 11. júlí í ár sem fyrr segir og í fyrrasumar var veiðum hætt 21. júlí. Árin þar á undan var veitt fram í ágúst en þó ekki út tímabilið. Samkvæmt kerfinu má hver bátur veiða tólf daga í hverjum mánuði frá og með maí til og með ágúst en veiðum lýkur þó er strandveiðiflotinn hefur samanlagt náð heildarkvótanum sem núna var tíu þúsund tonn.

Kostnaður og blóðtaka

„Besti tíminn til handfæraveiða á Vesturlandi og fyrir Vestfjörðum er fyrri partur sumars. Og besti tíminn hjá okkur fyrir austan er þegar síldin kemur og hún kemur svona á miðju sumri. Þá er veiðin rétt að byrja að fara í gang hjá okkur,“ segir Baldur. Dæmið gangi ekki upp á norðausturhorninu ef aðeins eigi að veiða í maí og júní.

Guðmundur Baldursson Kópaskeri Aðsend
Guðmundur Baldursson Kópaskeri Aðsend

„Það voru þrjár litlar útgerðir frá Raufarhöfn sem flúðu núna í vor og skráðu sig á Grundarfjörð og Patreksfjörð,“ segir Baldur.

Mikil umsvif hverfi með þessum bátum frá hverju plássi og það bitni á samfélaginu sem verði af tekjum. Fyrir eigendur bátanna fylgi því mikið umstang og kostnaður að skrá sig hinu megin á landinu og gera út fjarri heimahögum.

„Straumurinn hefur verið frá Austurlandi yfir á Vesturland. Það er þá bara ákvörðun að hafa það þannig ef menn vilja það, að beina öllum vestur. En það er ekki það sem strandveiðarnar voru hugsaðar um. Það var ekki uppleggið með strandveiðunum heldur þvert á móti að treysta stoðir undir brothættar byggðir,“ segir Baldur Guðmundsson.