Fiskistofa hefur úthlutað til skipa því viðbótaraflamarki í þorski og ýsu sem tilkynnt var um í síðustu viku. Alls fengu 600 skip úthlutað aflamarki allt frá 1 kg upp í 26,6 tonn í þorski og frá 1 kg upp í 22,6 tonn í ýsu, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Sjávarútvegsráðherra gaf út reglugerð um úthlutun á 1.100 tonnum af þorski og 800 tonnum af ýsu sem áður hafði verið ráðstafað til línuívilnunar. Tekið var fram að þessi úthlutun nú kæmi þó ekki til með að auka áður leyfðan heildarafla í þorski og ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári. Aðeins væri verið að úthluta því sem sýnt þætti að ekki nýttist til línuívilnunar.