Tveir aldnir togarar skráðir í Kalíningrad í Rússlandi, hafa haft vetursetu í Hafnarfjarðarhöfn undanfarinn áratug og setja sinn svip á höfnina. Þeir skila Hafnarfjarðarhöfn ágætum tekjum, jafnt þegar þeir eru að veiðum á grálúðu og djúpkarfa fyrir utan íslensku lögsöguna og þegar þeir eru bundnir við bryggju yfir vetrarmánuðina.

„Við erum ekki ósáttir við veru þessara skipa því þau gefa okkur tekjur. Þetta eru skip sem eru skráð í Kalíningrad og eru að veiðum allt sumarið. Þau eru á djúpkarfa úti á Reykjaneshrygg og með kvóta þar. En þau eru ekki með kvóta í Barentshafi og eru því eingöngu við veiðar hérna á djúpkarfa og grálúðu frá því í apríllok og fram í októberbyrjun. Þau eru svo hér hjá okkur í vetrarbið og fá frá okkur þjónustu og fara sömuleiðis í þurrkvína í viðhald reglulega. Annað hvert ár hafa þau öll verið skveruð til og máluð. En þetta eru gamlir austur þýskir togarar smíðaðir einhvern tíma á níunda áratugnum. Þeir hafa haldið til í Hafnarfjarðarhöfn lengi og því orðnir nokkuð þekkt kennileiti hérna við höfnina. Til hafnarinnar renna bryggjugjöld frá útgerðum þeirra og við seljum þeim rafmagn og ýmsa þjónustu. Við kvörtum ekkert undan þessu meðan við höfum pláss fyrir þau. Þau eru bundin við geymslubryggju hjá okkur og ekki fyrir neinum,” segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri.

Orkuskiptin hafin

Aflinn er frystur um borð og honum landað í Hafnarfirði, ýmist í flutningaskip við bakkann eða frystigeymslur hjá Eimskip. Nú bregður líka svo við að ónæði og loftmengun frá ljósavélum skipa í höfninni minnkar mikið með næsta vori þegar nýjar háspennu- og riðatengingar verða teknar í notkun bæði á Hvaleyrarbakka og Suðurbakka. Nú er unnið að uppsetningu á öflugum tengibúnaði og háspennulögn inn á bakkana. Næsta sumar verður því hægt að tengja bæði stærstu frystitogara og minni skemmtiferðarskip við rafmagn úr landi þegar þau leggjast að bryggju. Kostnaður við þessar framkvæmdir og fjárfestingar hleypur á nokkrum hundruðum  milljóna króna.