Skuttogarinn Tobis lagðist að bryggju í Hafnarfirði síðastliðið laugardagskvöld eftir siglingu frá Noregi. Það er útgerðarfélagið Vestri ehf. á Patreksfirði sem hefur keypt þennan 40 metra langa og tíu metra breiða togara sem var smíðaður árið 2009 hjá Karstensens skipasmíðastöðinni á Jótlandi.

Vefmiðillinn www.bb.is sagði fyrst frá komu skipsins.

Jón Árnason verður skipstjóri Vestra BA og hann var um borð í skipinu þegar því var siglt frá Noregi til Íslands. Skipið hefur ekki verið afhent formlega nýjum eigendum en til stóð að það yrði gert á næstu dögum.

„Skipinu hefur verið vel við haldið og ekki að sjá á öðru en að um mjög gott skip sé að ræða,“ segir Jón.

Hann segir komu skipsins talsverð tímamót fyrir Patreksfirðinga því þetta verður í fyrsta sinn sem Vestri ehf. gerir út togara og um leið fyrsti togarinn sem gerður er út frá Patreksfirði á þessari öld. Nýr Vestri BA verður sjötta skipið með þessu nafni en sá fyrsti var keyptur árið 1967. Vestri ehf. hefur síðastliðin tíu ár gert út togbát á rækju- og bolfiskveiðar.

Til veiða í apríl

„Nýja skipið mun heita Vestri og hann verður grænn. Hann verður gerður út á rækju- og bolfisktroll. Hann dregur tvö troll og við skulum ætla það að skipið komi með talsverð verðmæti í land þegar hann verður kominn í fulla drift.“

Vestri ehf. býr yfir nægum rækjukvóta til að auka rækjuveiðarnar en kvótastaðan er óbreytt í öðrum tegundum. Eldri togbátur með sama nafni verður seldur. Jón segir að 9-10 manns verði áhöfn nýja skipsins á bolfiskveiðum og 6-7 manns þegar farið verður á rækjuveiðar.

„Ég á von á því að við höldum til veiða eftir um það bil tvær til þrjár vikur. Það eru sáralitlar breytingar sem þarf að gera á skipinu og nánast eingöngu þarf að aðlaga skipið að okkur. Við eigum líka eftir að skrá það inn til landsins og setja það undir íslenskt flagg.“

Vestri hefur landað rækju á Siglufirði undanfarin tvö ár enda engin rækjuverksmiðja á Patreksfirði. Úthafsrækjuveiðarnar úti fyrir Norðurlandi hefjast yfirleitt um þessar mundir í marsmánuði og standa fram í október.