Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í Neskaupstað á sunnudag og í gær og voru bæði með fullfermi.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

„Við vorum á Tangaflakinu allan tímann í skítabrælu. Veðrið var ansi þreytandi því allt verður helmingi erfiðara þegar það lætur svona. Aflinn var að mestu þorskur en það var aðeins ýsa með,” er haft eftir Jóni Valgeirssyni, skipstjóra á Bergi, sem kom til löndunar á sunnudaginn og er nú að fá i ýsu á Glettinganesflakinu.

Aflinn nánast hreinn þorskur og stefna nú á ýsu

Í gær kom Vestmannaey til löndunar í gær. Tekur Birgir Þór Sverrisson skipstjóri í sama streng og Jón varðandi veðrið.

„Við fórum út á fimmtudagskvöld og það var sannkallaður leiðindaskælingur alveg fram á sunnudag. Við hófum túrinn á Gerpisflaki, vorum síðan Utanfótar og á Tangaflaki en enduðum á Héraðsflóanum í þokkalegustu veiði. Aflinn er nánast hreinn þorskur. Við gerum ráð fyrir að fara út fljótlega eftir löndun og þá er stefnan að reyna við ýsu,” er haft eftir Birgi Þór á vef Síldarvinnslunnar þar sem jafnframt kemur fram að gert sé ráð fyrir að skipin tvö landi í Neskaupstað síðar í vikunni.