Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE hafa fiskað fyrir austan land undanfarnar vikur og oftast landað aflanum í Neskaupstað.
Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar þar sem einnig segir að í síðustu viku hafi skipin þó landað í Eyjum. Í gær hafi þau komið til Neskaupstaðar og landað fullfermi.
Afar tregt á Broadway
„Í veiðiferðinni fylgdust skipin að og öfluðu svipað, en aflinn var nær alfarið þorskur og ýsa. Í samtali við skipstjórana, Jón Valgeirsson á Bergi og Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey, kom fram að algengt væri að veiðar færu fram fyrir austan land á þessum árstíma enda lítið að hafa fyrir sunnan landið. Í síðasta túr reyndu skipin fyrir sér á Broadway fyrir vestan Eyjar en þar var afar tregt. Einungis fékkst ýsa og hún var blönduð og ekki góð. Því var strikið tekið austur fyrir land beint á Glettinganesflak. Þar var góð veiði og þar fékkst góður fiskur. Skipstjórarnir segja að þarna sé fiskurinn í síldinni og mikið líf. Undir lok túrsins var haldið á Tangaflakið og þar var hann kláraður,“ segir á svn.is.
Þá segir að skipin hafi haldið til veiða fljótlega að löndun lokinni en skipstjórarnir haft á orði að veðurspáin væri ekki sérstaklega góð.