Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landar nánast fullfermi í Neskaupstað í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar skipstjóra og spurði hvernig hefði gengið í veiðiferðinni.

„Þetta gekk þokkalega en við vorum tæplega þrjá sólarhringa að veiðum. Aflinn skiptist nánast til helminga, þorskur og ýsa. Við vorum allan tímann á Gerpisflaki og Skrúðsgrunni. Við höfðum Austfjarðamið út af fyrir okkur ásamt Ljósafellinu en flest skip eru nú að veiðum fyrir vestan land. Veðrið í túrnum var heldur rysjótt en þó fengum við gott veður í gær. Nú er hins vegar komið vitlaust veður. Að löndun lokinni munum við bíða veðrið af okkur. Við sjáum til hvernig viðrar í kvöld,” segir Birgir Þór.