Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í heimahöfn á miðvikudaginn. Afli beggja skipa var blandaður; ufsi, ýsa, þorskur og koli. Skipstjórarnir voru báðir ágætlega sáttir við aflabrögðin. Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey sagði að það væri aðeins farinn að sjást vertíðarfiskur við Eyjar.

„Við byrjuðum í sólarhring á Ingólfshöfða. Þar var gott fiskirí og við fengum ein 50 tonn en síðan var klippt á það. Þá færðum við okkur á Broadway, tókum þar þrjár sköfur og fylltum. Fiskiríið er býsna misjafnt þessa dagana. Það koma glennur en svo dettur það niður. Það verður að segjast að þetta er sérstök vertíð, veiðin er ágæt en það er ekki samfelld kraftveiði,” sagði Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, var ágætlega sáttur við túrinn. „Við létum úr höfn í Þorlákshöfn og byrjuðum að taka eitt hol á Selvogsbankanum. Þar var rólegt þannig að við keyrðum austur á Ingólfshöfða. Við vorum þar í tvær birtur, sú fyrri var góð en hin síðari gaf ekkert. Þá var haldið á Brekableyðuna og þar var góð veiði. Aflinn var vel blandaður og við fylltum þar í þremur holum. Þetta var stuttur túr, einn og hálfur sólarhringur fór í keyrslu og við vorum svipaðan tíma að veiðum,” sagði Jón.

Vestmannaey hélt á ný til veiða í gær og Bergur í nótt sem leið.