​Ísfisktogarinn Vestmannaey hefur verið til viðgerða í Reykjavík síðastliðna fjóra mánuði en hinn 27. október sl. kom upp eldur í vélarúmi skipsins og urðu miklar skemmdir á annarri aðalvél þess. Loksins er viðgerðarvinnunni að ljúka, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri segir að mikill tími hafi farið í að bíða eftir varahlutum í vélina frá Japan og þar hafi kóvídfaraldurinn sett stórt strik í reikninginn. Annars segir Guðmundur að viðgerðin hafi gengið vel en þau fyrirtæki sem hafi borið hitann og þungann af vinnunni hafi verið vélsmiðjan Framtak og rafmagnsfyrirtækið Rafboði.

​Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði hvort menn væru ekki ánægðir með að viðgerð á skipinu væri lokið.

„Jú, svo sannarlega. Við fórum í prufutúr í gær og það gekk allt eins og í sögu. Nú verður siglt frá Reykjavík áleiðis til Vestmannaeyja um eða eftir hádegi og síðan verður allt gert klárt fyrir veiðar. Ég vona að við getum haldið til veiða annað kvöld eða á sunnudag. Það þarf að hóa saman köllunum en margir þeirra hafa verið á öðrum skipum að undanförnu og aðrir hafa unnið fyrir útgerðina í Eyjum eða þá starfað við viðgerðirnar hér um borð. Þetta mun allt ganga vel og það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fara á sjóinn aftur enda vertíðin að fara að byrja. Nú er bara að vona en þessum látum í veðrinu fari að linna. Það er komið miklu meira en nóg af brælum,“ segir Birgir Þór.