Engin viðbót við fyrri loðnumælingar hefur fundist. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór út frá Vestmannaeyjum í gær og hefur eingöngu orðið vart við smáhrafl af loðnu síðan. Skipið er nú grunnt með suðurströndinni á leið austur að Hvalbakshallinu en mun síðan snúa við og leita djúpt vestur eftir til baka.

Börkur NK veiddi loðnu í nótt norðvestur úr Garðskaga og er á leið til Neskaupstaðar með aflann. Ingunn AK eru á leið austur til Vopnafjarðar með loðnufarm.

Að sögn Þorsteins Sigurðssonar sviðsstjóra á Hafrannsóknastofnun munu eitt eða tvö skip væntanlega fara í loðnuleit fyrir vestan land fimmtudag og föstudag. ,,Við erum farnir að horfa á vestursvæðið sem einu vonina í þessu,” sagði Þorsteinn þegar Fiskifréttir ræddu við hann klukkan 16,30 í dag.