Greining Íslenska sjávarklasans leiðir í ljós að nýting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á þorski er betri en hingað til hefur verið talið, eða um 90 prósent. Enn má þó gera betur er niðurstaða greiningarinnar og veruleg tækifæri til staðar til að vinna enn meira úr þeim hliðarafurðum sem falla til og skapa verðmæti og ný störf.
Það eru 35 fyrirtæki í landinu sem sinna að stærstum hluta vinnslu hliðarafurða. Það fengust upplýsingar um þá vinnslu frá þrjátíu þeirra, við vinnslu greiningarinnar þar sem kemur fram að á átta ára tímabili, árunum 2012 til 2019, jókst velta þeirra um 35 prósent. Stærstu fyrirtækin í vinnslu hliðarafurða vinna 20-30 þúsund tonn.
„Segja má að ekki sé ósvipuð staða hjá fyrirtækjum í vinnslu hliðarafurða og var í tæknigeiranum sem þjónar sjávarútvegi fyrir röskum 10-15 árum; fáir samrunar og mikill fjöldi lítilla fyrirtækja. Á undanförnum árum hefur þó orðið verulega breyting á þessu hjá tæknifyrirtækjum og þau stærstu hafa keypt upp minni fyrirtæki og eflt þannig starfsemi sína,“ segir í greiningunni. Eins að þau fyrirtæki sem teljast til mest virðisaukandi hluta fullvinnslu hliðarafurða hafa töluvert sótt í sig veðrið. Þessum fyrirtækjum, sem vinna prótín, lækningavörur og bætiefni úr hliðarafurðum, hefur verið komið á fót á síðustu árum og eiga það sameiginlegt að byggja á rannsóknum og þróun og skila þannig auknum verðmætum út úr hverju kílói hráefnis sem til fellur.
„Mörg þessara fyrirtækja eru enn á sprotastigi og útflutningur margra þeirra lítill. Þessi fyrirtæki eru þó sum hver metin á milljarða króna og hafa þau jafnframt fengið nýja hluthafa með í hópinn.“
Nýting þorsksins
Við mat á nýtingu þorsksins var notast við gögn frá Hagstofu Íslands. Þau eru að nokkru leyti takmörkuð en athugun klasans leiðir engu að síður í ljós að samkvæmt útflutningstölum um allar helstu afurðir ásamt áætluðum tölum um hlutfall þorsks í útfluttum fiskúrgangi, má áætla að útflutningur ásamt innanlandsneyslu á þorski þýði að um 88,6% þorsks sé nýttur.
Nýting á slógi innanlands í m.a. minkafóður er þar ótalin og erfitt að meta hversu mikið af slógi eða óslægðum þorski, sem ekki borgar sig að slægja eða nýta í aðra vinnslu, fer til mjölvinnslu. Loks er ekki ljóst hvort inni í útflutningstölum séu allar upplýsingar um gæludýrafóður og marning. Hér ályktar höfundur að varlega áætlað sé um að ræða 1-3% af heild.
Mikið nýtist ekki enn
Samkvæmt þessum niðurstöðum er rösklega 90% þorsksins nýttur hérlendis. Skýringin á aukningunni er án efa hækkandi verð á mörgum hliðarafurðum og aukinn áhugi fyrir vinnslu hliðarafurða. Þá hefur verið afar þýðingarmikið að stærri fyrirtæki, sem þjónað hafa sjávarútvegi með umsýslu með hliðarafurðir, hafa aukið afkastagetu sína.
Þegar allt er talið er ljóst að þrátt fyrir um 90% nýtingarhlutfall þá er enn verið að henda á þriðja tug þúsunda tonna af hliðarafurðum hérlendis og sóknarfærin í aukinni fullvinnslu aukaafurða því öllum ljós.
Sérstaklega er tiltekið að Matís gegnir hér stóru hlutverki en mörg fyrirtækja í vinnslu hliðarafurða hafa notið þekkingar og stuðnings Matís í fullvinnslu hérlendis.
„Samruni fyrirtækja á þessu sviði getur einnig haft jákvæð áhrif og eðlilegt er að sú vinna haldi áfram. Ekki síst væri áhugavert ef sameinuð fyrirtæki hérlendis mundu hefja útrás til annarra landa með uppkaupum á erlendum fyrirtækjum sem sérhæft hafa sig í nýtingu hliðarafurða. Þá er hugsanlegt að fleiri fyrirtæki, sem taka nú þegar á móti þúsundum tonna af hliðarafurðum, hefji samstarf við minni og sérhæfðari fyrirtæki í fullvinnslu til að auka áframvinnslu og þar með verðmæti þeirra hliðarafurða sem nýttar eru hérlendis,“ segir í niðurlagi greiningarinnar.
Verðmæti fara í súginn
Fullvinnsla hliðarafurða er skilgreind af Sjávarklasanum sem nýting á öllum pörtum fisksins öðrum en fiskflakinu. Í greiningunni segir: „Nýting hliðarafurða hefur verið lítil í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman eða einungis 45-55% af hvítfiski. Þarna er um veruleg verðmæti að ræða sem fara í súginn hjá öðrum þjóðum. Hér liggja því tækifæri fyrir aðrar sjávarútvegsþjóðir til að gera betur og fyrir Íslendinga að koma að þeim verkefnum með íslenska tækni og þekkingu.“
Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, sem er höfundur greiningarinnar, stýrir ráðstefnunni Fish Waste for Profit - sem haldin verður á á IceFish Connect á netinu 16.-17. nóvember nk. Ráðstefna fyrir alla sem hafa áhuga á tæknilegri nýsköpun og nýtingu hliðarafurða sjávarafla.
- Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans. Mynd/Eyþór