Grásleppuvertíðin í ár gaf tæpar 8.500 tunnur af hrognum. Mestu var landað í Stykkishólmi eða sem samsvarar 732 tunnum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Alls stunduðu 286 bátar grásleppuveiðar á vertíðinni og má því ætla að um 1000 manns hafi haft beina atvinnu af veiðum og vinnslu. Vertíðin í fyrra skilaði rúmlega 12.250 tunnum. Samdráttur í ár er því verulegur en hann skýrist af færri veiðidögum og fækkun neta í sjó.

Verð á hrognum er ennþá lágt og nokkuð er óselt af framleiðslu ársins.

Verð fyrir hveljuna hækkaði aftur á móti. Áætlað aflaverðmæti fyrir hvelju er 300 milljónir króna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.