Það er líf og fjör í veiðum og vinnslu á makríl í og utan við Vestmannaeyjar, að því er fram kemur í frétt á vef LÍÚ.  ,,Makrílveiðarnar hafa gengið vel, veiðisvæðið er 40-60 sjómílur sunnan og austan við Eyjar. Huginn landar á morgun eða miðvikudag og þá hefur skipið komið með um 1.600 tonn af frystum afurðum til löndunar," segir Páll Guðmundsson útgerðarstjóri Hugins.

Hjá Ísfélagi Vestmannaeyja starfa um 80 manns í landi við vinnslu á makríl til manneldis, en fyrirtækið hefur tekið á móti 3000 tonnum.  Eyþór Harðarson vinnslustjóri segir að vinnslan gangi ágætlega. „Hér er unnið á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn. Makríllinn er enn sem komið er frekar magur, en hann fitnar væntanlega er líður á sumarið. Það er ekki nema tveggja til þriggja klukkustunda sigling í land með hráefnið, þannig að það er eins ferskt og hægt er. Síðan þegar fiskurinn verður veiðanlegur fyrir austan hefst vinnsla hjá okkur á Þórshöfn."

Hjá Vinnslustöðinni starfa um 100 manns við makrílvinnsluna. Anna Sigríður Hjaltadóttir segir að sannkölluð vertíðarstemming ríki. „Mér reiknast til að hér í húsinu starfi um tvöhundruð manns og stór hluti er ungt og frískt fólk. Helmingurinn vinnur við makrílinn, 40-50 manns eru við humarvinnsluna og svipaður fjöldi starfar við bolfiskvinnsluna, þannig að það segir sig sjálft að hér er líf og fjör. Eins og staðan er núna er búið að landa hjá okkur um 4000 tonnum af makríl og vinnslan hefur gengið vel, enda hráefni ágætt og tækjabúnaður góður.

Jón Ólafur Svansson hjá Godthaab í Nöf segir að fyrirtækið hafi fjárfest mikið í vinnslubúnaði. Fyrirtækið hefur fengið til sín 600-700 tonn af makríl. „Frystigetan hjá okkur er á bilinu 50- 60 tonn á sólarhring og starfsmenn í makrílnum eru 35-40. Hér er unnið allan sólarhringinn og vinnslan hefur gengið vel til þessa. Þetta er annað árið sem við vinnum makríl og tækjabúnaðurinn hefur almennt reynst ágætlega.Hráefnið er gott miðað við árstíma og við fáum það eins ferskt  og hægt er, enda örstutt á miðin héðan."

Vefur LÍÚ .