Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu bæði fullfermi í Grindavík á laugardaginn. Aflinn var fyrst og fremst þorskur, ýsa og ufsi.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að afar vel hefði veiðst. „Við vorum á Víkinni allan tímann og veiðin var afar góð. Túrinn tók tvo sólarhringa höfn í höfn og við vorum um einn og hálfan sólarhring að veiðum. Það er svo sannarlega að lifna yfir þessu og fiskurinn er stór og fallegur,” sagði Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tók undir með Jóni. „Nú er farið að glaðna yfir okkur köllunum. Við fórum fyrst á Pétursey í túrnum en stoppuðum þar stutt og fórum á Víkina. Þar var aðgæsluveiði. Nú flæðir vertíðarfiskurinn þarna yfir og í ár gerist það býsna seint. Þetta lítur afar vel út og nú eftir löndun ætlum við að kíkja á Selvogsbankann og kanna stöðuna þar,” sagði Birgir Þór.

Bæði skip héldu til veiða strax að löndun lokinni en komu til hafnar í Vestmannaeyjum í gær vegna brælu og voru með hálffermi. Landað verður úr Bergi en síðan halda skipin til veiða í dag. Fyrir bræluna var veitt á Selvogsbanka og vestur af Surtsey.