Á fyrri helmingi ársins nam útflutningsverðmæti saltaðra grásleppuhrogna og grásleppukavíars 923 milljónum króna. Það er hvorki meira né minna en 113% aukning frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda.
Eins og undanfarin ár keyptu Frakkar langmest af grásleppukavíar eða tæpan helming af heildarmagninu, Þjóðverjar voru næstir í röðinni og Ítalir í þriðja sæti í heildarmagni innkaupa. Alls voru flutt út 226 tonn á tímabilinu.
Hæsta meðalverð fyrir grásleppukavíar fékkst á Bandaríkjamarkaði. Heildarútflutningsverðmæt kavíars var 355 milljónir. Svíar og Danir keyptu mest af söltuðum grásleppuhrognum og Þjóðverjar voru skammt á eftir. Alls svaraði heildarmagnið til 4.658 tunna á móti 4.117 tunna á sama tímabili 2008.
Í fréttinni á vef LS segir að þessar fréttir séu sérlega ánægjulegar fyrir það að þrátt fyrir að veik króna hafi hjálpað til við að stuðla að verðmætaaukningu hafi einnig náðst hækkun á báðum vörunum í evrum og dollar.