Unnt væri að vinna mjög verðmætar afurðir úr þeim fiski sem kastað er fyrir borð á evrópskum fiskiskipum. Hér er alls um eina milljón tonna af fiski að ræða. Meðal annars væri hægt að búa til fyrsta flokks dýrafóður, að því er Skotinn Struan Stevenson, þingmaður á Evrópuþinginu, segir.

Stevenson krefst þess að meðafla að verðmæti 40 milljónir punda (7,7 milljarða ísl. króna) sem skoskir sjómenn kasta í sjóinn sé breytt í fiskimjöl og lýsi til að koma í veg fyrir hræðilega sóun og umhverfismengun í gengdarlausu brottkasti. Samkvæmt fiskveiðistefnu ESB eru sjómenn skyldugir að henda meðafla aftur í sjóinn ef hann er umfram kvóta þeirra. Stevenson segir að fiskvinnslan sé tilbúin að greiða sjómönnum fyrir umframafla. Um er að ræða greiðslur sem væru ekki það háar að menn veiddu vísvitandi umfram kvóta en nógu háar samt til að menn sæju sér hag í því að koma með umframafla í land frekar en að henda honum.